Útskrifarnemar leiklistarkjörsviðs Borgarholtsskóla ásamt kennurum sínum brugðu á það ráð að sýna lokaverkefni sitt Yngismeyjar eftir Louisa May Alcott á leiksviði náttúrunnar í Elliðaárdal bak við stöðvarstjórahús gömlu rafveitunnar. Dúnúlpuklæddir nemar í síðkjólum innanundir hafa æft frá 4 mai og lært að beita röddinni í kapp við vindinn. Það dugir ekki að deyja ráðlaus og æfingin skapar forvitnilega sýningu út undir beru lofti. Áhorfendum er bent á að mæta með klappstól og regnhlíf. Sýningarnar eru tvær, kl. 17 og kl. 19 í dag og tekið er tillit til fjöldatakmarkana þannig að fystir koma fyrstir fá.