Sýningum Leikfélags Akureyrar á söngleiknum Kabarett lýkur laugardaginn 9. febrúar eftir tæplega 30 sýningar.
Söngleikurinn hefur gengið fyrir fullu húsi síðan hann var frumsýndur í Samkomuhúsinu þann 26. október 2018 og hefur fengið frábærar viðtökur, bæði hjá almenningi og gagnrýnendum. Kabarett er stærsta og flóknasta leiksýning sem Menningarfélag Akureyrar hefur sett upp í áraraðir og sú sýning sem slegið hefur flest aðsóknarmet en hátt í sex þúsund manns munu hafa séð sýninguna þegar yfir lýkur.
Marta Nordal, leikhússtjóri LA, leikstýrir Kabarett en þegar mest lætur eru yfir 20 manns á sviðinu í einu. Ástæðan fyrir því að sýningum lýkur nú er svo uppsetning á nýjum fjölskyldusöngleik, Gallsteinar afa Gissa, fái aukið svigrúm í leikmynda- og tæknivinnu. Söngleikurinn Gallsteinar afa Gissa er eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Þorvald Bjarna Þorvaldsson og Karl Ágúst Úlfsson en sá síðastnefndi leikur einnig titilhlutverkið. Söngleikurinn verður frumsýndur 23. febrúar í Samkomuhúsinu.