Hallgrímur Helgason og Dagur Hjartarson lesa úr og spjalla um nýútkomnar bækur sínar á bókakaffi kvöldsins, sem fer fram í Menningarhúsinu í Gerðubergi kl. 20-22 í kvöld.
Á skáldatali býður Borgarbókasafnið tveimur rithöfundum og skáldum að koma saman og ræða nýútkomnar bækur sínar, eldri verk, framtíðaráform, atvinnuleyndarmál, uppáhalds uppskriftir eða önnur sérleg hugðarefni.
Hallgrímur Helgason sendi frá sér skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini nú fyrir jólin, en þar fjallar hann um sjávarþorpið Segulfjörð og þau örfáu umbyltingarár í íslenskri sögu þegar síldin synti með nútímann inn fjörðinn. Hallgrímur hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina.
Því miður er þriðja ljóðabók Dags Hjartarsonar, en hann hefur einnig sent frá sér smásagnasafn og skáldsögu. „Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir / af feigðinni,“ segir í heilsteyptu ljóðverki, þar sem kápan vísar beina leið til stórveldisins Domino’s.