Á morgun, sunnudaginn 9. september kl. 15, fremur Styrmir Örn Guðmundsson gjörning sem ber nafnið: Líffæraflutningur á Gerðasafni í Kópavogi.
Í verkinu hefur Styrmir mótað seríu leirskúlptúra sem hver og einn sækir form sitt í lögun líffæra. Styrmir valdi líffærin út frá forminu því hér gegna þau hlutverki hljóðfæra. Maginn er Udu tromma, lifrin er flauta, lungun búa til sama hljóm og dauðaflautur Azteka og heilinn er gæddur hljóðgervli sem býr til rafhljóð.
Í framhaldinu ræðir hann verk sitt á sýningunni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR en verkum Styrmis er ekki ætlað að falla í ákveðinn flokk. Hann hefur ýmist verið kenndur við gjörningalist, break dans, rapp / söng, teikningar, skáldverk, skúlptúr eða leikstjórn. Listformin fléttast saman í frásagnir sem einkenna sköpunarverk hans. Sögurnar þróast úr einu í annað og þannig getur teikning á pappír þróast yfir í músík eða skúlptúr sem verður síðar upphafið að gjörningi.
Aðgangur á safnið gildir á viðburðinn.