Miðborgin iðar af jazztónum dagana 5.-9. september þegar fram fer Jazzhátíð Reykjavíkur 2018. Íslenskt jazzlíf hefur aldrei staðið styrkari fótum en nákvæmlega núna og á hátíðinni gefst færi til að hlýða á framvarðarsveitir í faginu en ekki síður er spennandi samstarf íslenskra flytjenda og erlendra sem er fyrirferðamikið að þessu sinni.
Setningarathöfn Jazzhátíðar í ár mun fara fram á Borgarbókasafni kl. 17:30 eða í beinu framhaldi af skrúðgöngu sem hefst á Hlemmi kl. 17:00. Boðið verður upp á margslungin tónlistaratriði og stuttar og skemmtilegar ræður.
Athyglisverð erlend númer skjóta upp kollinum á Jazzhátíð í ár, eins og Marilyn Mazur kvennabandið alþjóðlega, gítarleikarinn Ralph Towner og kvartett pólska píanóleikarans Marcin Wasillewski. Ólíkt fyrri árum verða tónleikar á ýmsum stöðum í borginni í stað salarkynna í Hörpunni. Helstu staðirnir eru Hannesarholt, Tjarnarbíó, Iðnó og Gullteigur á Grand hótel en sveiflan nær reyndar alveg austur í gömlu kartöflugeymslurnar í Ártúnsholti sem nú hafa verið uppfærðar í prýðilegan vettvang fyrir tónlistarflutning.
Í tilefni af hátíðinni stilltu starfsmenn Borgarbókasafnsins fram fínasta djasskosti safnsins í útstillingu á 5. hæðinni.