Sýningin Endalaust var opnuð þann 30. ágúst síðastliðinn í Duus Húsum í Reykjanesbæ. Á henni má sjá verk 20 hönnuða og handverksfólks sem eiga það sameiginlegt að vinna með hráefni sem annars færi forgörðum. Hönnuðum sem eiga það jafnframt sameiginlegt að koma inn á því stigi hringrásarinnar að þeirra hlutverk er að gjörnýta hráefni.
Við lifum í miklu neyslusamfélagi. Á hverjum degi er hent miklu magni af hverskyns rusli og afgöngum. Ef litið er á ruslið sem spennandi hráefni er hægt að breyta þessu úr vítahring í hringrás. Hráefnið verður þá efniviður í nýja hluti í stað þess að vera íþyngjandi rusl. Þannig verður til endalaus hringrás.
Sóunin fór fyrst að eiga sér stað með aukinni iðnvæðingu og kröfunni um síaukinn hraða og framlegð á hverja vinnustund. Nú er offramleiðsla á á flestum sviðum og flest erum við ómeðvituð um það rusl sem við skiljum eftir okkur á jörðinni.
Skapandi fólk þarf að vera í fararbroddi við að taka næstu skref til að snúa við þessari þróun og benda á nýjar lausnir við að gjörnýta það sem í dag kallast rusl.
Á sýningunni má einnig sjá stuttmynd um efni og endurvinnslu sem Þráðlausar (þær Ragnheiður Stefánsdóttir og Margrét Katrín Guttormsdóttir) gerðu en henni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismál.
Sýnendur eru:AFTUR, Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir, Ásthildur Magnúsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir, Flétta og Steinunn Eyja Halldórsdóttir,Friðbjörg Kristmundsdóttir, Guðrún Borghildur Ingvarsdóttir, Handaband, Helga Ragnhildur Mogensen, Kristín Sigfríður Garðarsdóttir og Áslaug Snorradóttir, Magna Rún, Olga Bergljót, Ólöf Erla Bjarnadóttir, Studio Portland, Studio Trippin, Unnur Karlsdóttir – Ljósberinn, USEE STUDÍO, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir, Ýrúrarí og Þráðlausar.
Sýningarstjóri er Ragna Fróða.
Endalaust er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og HANDVERKS OG HÖNNUNAR og er styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Sýningin er opin alla daga til 4. nóvember kl. 12-17.
Í tengslum við sýninguna verða haldnar tvær vinnustofur fyrir almenning dagana 15. sept. (Handaband) og 6. okt. (Þráðlausar). Vinnustofurnar verða kl. 14-16.
Sýningin er jafnframt skólasýning allra grunnskóla í Reykjanesbæ haustið 2018 og mun stuttmyndin sem Þráðlausar gerðu um efni og endurvinnslu verða notuð sem innblástur fyrir nemendur.