Sólveig Johnsen, kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna, skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, um kvikmyndina Lof mér að falla.
Í Lof mér að falla (2018) tekst Baldvin Z á við undirheima Reykjavíkur á hátt sem ekki hefur sést áður í íslenskri kvikmyndagerð. Í henni er sögð ástarsaga tveggja kvenna sem báðar eru fíklar. Þetta er eitrað samband sem dregur þær báðar dýpra og dýpra í svaðið, þær eru ekki einungis háðar efnunum heldur hvor annarri líka og því skapast hér saga um fíkn og þráhyggju, í efni og í ást. Með þessum vinkli tekst Baldvin að fjalla um fíkniefnaheiminn á Íslandi á tilfinningalegu plani; þetta er ekki spennuþrungin frásögn heldur næm og grípandi umfjöllun um fíkla – sem hér eru venjulegar manneskjur með ástríður og drauma, ekki tölur á blaði eða hættulegir glæpamenn.
Enn fremur gefur það kvikmyndinni aukna merkingu að fjalla um konur innan þessa heims, en ljóst er að þó undirheimarnir séu grimmir við alla verða konur undir á annan og alvarlegri hátt en karlar, meðal annars vegna þess mikla kynferðisofbeldis sem þær eru beittar. Þær eru jaðarsettar innan jaðarsetts hóps. Með því að byggja handritið á raunverulegum frásögnum íslenskra kvenna í neyslu hefur Baldvin, ásamt Birgi Erni Steinarssyni, skapað heildarsögu sem er sannfærandi og heldur áhorfendum vel við efnið, en má jafnframt ætla að endurspegli reynslu fjölmargra íslenskra kvenna. Atburðirnir sem sjást á hvíta tjaldinu hafa gerst oft og mörgum sinnum, þeir eru að gerast akkúrat núna og munu eiga sér stað aftur og aftur og aftur.
Persónusköpun í kvikmyndinni er vel heppnuð og leikkonurnar fjórar sem fara með hlutverk Stellu og Magneu á mismunandi aldursbilum eru mjög sannfærandi. Elín Sif Halldórsdóttir (Magnea, yngri) og Eyrún Björk Jakobsdóttir (Stella, yngri) hafa góða tengingu sín á milli og ná að koma vel til skila eitraða ástarsambandinu sem persónurnar eiga í; hversu skemmandi samskipti þeirra eru en jafnframt hversu heitar tilfinningar þær bera til hvor annarrar. Í baksögu aðalpersónunnar er brugðið út frá hefðbundnum ímyndum fíkla í kvikmyndum að því leyti að Magnea kemur ekki úr hræðilegu umhverfi eða notar fíkniefni til að flýja áföll og fortíðardrauga. Hún er þvert á móti ósköp venjuleg íslensk stúlka sem lifir góðu lífi en rennur smám saman inn í heim fíknarinnar. Í kvikmyndinni er þróuninni komið til skila á raunsæjan hátt; hversu sakleysislega þetta byrjar og hvernig vítahringur áfalla og neyslu brýtur manneskjuna smám saman niður þar til hún hefur brennt flestar brýr að baki sér.
Þó Stella sé án efa í hugum margra einhverskonar sökudólgur í öllu saman (í mörgum lýsingum á kvikmyndinni er talað um að hún „notfæri sér“ Magneu) er ljóst að hún er veik manneskja sem þjáist líka. Í persónunni birtist sú siðferðislega hnignun sem fylgir langvarandi eiturlyfjaneyslu: siðferðisgildi breytast eftir hentisemi, vinskapur byggist eingöngu á því að útvega og nota efni, tilfinningar brenglast og engin dýpt er til staðar í samskiptum. Engum er treystandi og fólk svíkur þá sem því þykir vænst um til að bjarga eigin skinni. Í Stellu birtast sálarkvalirnar sem fylgja því að framkvæma eitthvað hræðilegt og þurfa síðan að lifa með afleiðingunum. Haldið er fast í þá staðreynd að fíklar eru ekki sérstök „tegund“, heldur eru þau venjulegt fólk sem fíknin og heimurinn í kringum efnin hefur breytt, gert þau siðlaus og sjálfselsk. Foreldrar Magneu eru svo á hliðarlínunni í gegnum alla atburðarásina og er vanmáttur þeirra sýndur á átakanlegan hátt samhliða því sem komið er inn á þau takmörkuðu úrræði sem standa fíklum til boða. Að þessu leyti er þörf samfélagsrýni til staðar í kvikmyndinni og hefur hún burði til að skapa aukna umræðu um þennan vanda.
Samtöl í kvikmyndinni eru í eðlilegu og raunsæju flæði, leikstjórinn er óhræddur við að leyfa persónum að tala óskýrt eða ofan í hvor aðra. Þetta er djarft val þar sem hérlendir áhorfendur eru vanir því að talað sé afskaplega skýrt í íslenskum kvikmyndum. Óhætt er að segja að þetta borgi sig, áhorfendur fá á tilfinninguna að þeir séu að horfa á eitthvað raunverulegt, ekki skrifuð samtöl. Af og til blandast myrk kímni inn í þau og ekki er hægt annað en að flissa þó efnið sé grafalvarlegt. Kvikmyndataka og eftirvinnsla vinna vel með efninu og ýta hvarvetna undir þau hughrif sem atburðarásin og persónurnar hafa á áhorfendur. Mikið er um nærgöngula, þrönga innrömmun sem sýnir andlit og líkama persóna í miklu návígi. Sömuleiðis er talsvert um handheldar, óstöðugar tökur og hraða klippingu. Með þessum aðferðum eru áhorfendur settir inn í augnablikið, þeir eru „á staðnum“ og upplifa ringulreiðina í huga persóna. Leikstjórinn getur síðan haft gríðarsterk áhrif með því að skipta skyndilega yfir í langt, stöðugt skot sem gefur engum færi á að líta undan (og er eitt slíkt líklega það magnaðasta í kvikmyndinni). Tónlistin er vandlega úthugsuð og ýtir undir myndefnið án þess að verða yfirgnæfandi – það er hreinlega hrollvekjandi þegar harðneskjulegir tónar hljómsveitarinnar Hatari hljóma í dóp-partíi. Í kvikmyndinni er mikið um ofbeldisatriði, en Baldvin fer þá leið að sýna ekki ofbeldið sjálft á grafískan hátt heldur að einblína frekar á tilfinningahliðina og á afleiðingar ofbeldisins. Hann gefur þannig áhorfendum tækifæri á að fylla í eyðurnar. Þetta er í andstæðu við þá tilhneygingu meginstraumsins að nota grafísk ofbeldisatriði til að krydda kvikmyndir, ýta við áhorfendum og jafnvel hneyksla þá.
Að lokum er vert að minnast á að í handriti Lof mér að falla er ekki sérstakt vægi sett á kynhneigð persónanna, þrátt fyrir að meginþráðurinn sé ástarsamband milli tveggja kvenna. Raunar eru kynhneigðir þeirra hvergi skilgreindar formlega og sú staðreynd að þær eru ekki gagnkynhneigðar er ekki gert að sérstökum drifkrafti eða uppsprettu átaka í frásögninni. Þetta er heldur óvenjulegt þegar kemur að hinsegin persónum í bíómyndum og sannarlega merki um jákvæða þróun í íslenskri kvikmyndagerð (svipað er uppi á teningnum í Andið Eðlilega (2018) eftir Ísoldu Uggadóttur).
Líklega er engin kvikmynd fullkomin og að sjálfsögðu mætti tína til einhver atriði við Lof mér að falla sem betur gætu farið. Mögulega var óþarfi að hnýta sögulokin saman á jafn dramatískan hátt og gert var. Mögulega hefði mátt veita persónusköpun Stellu meira rými, gefa henni baksögu og sýna meira af hennar mannlegu hlið. Jafnvel hefði mögulega mátt leggja meira upp úr því að líkamsbygging eldri leikkvennanna samsvaraði þeim yngri. Þetta eru þó smáatriði í heildarupplifuninni. Lof mér að falla er raunveruleg saga af raunverulegu fólki, saga sem í einhverri útfærslu er að eiga sér stað akkúrat núna. Hún hefur forvarnargildi, hún gefur innsýn í heim sem flestum er hulinn og vekur athygli á mikilvægum málefnum. Í henni heyrast raddir sem hingað til hafa ekki fengið rými.
Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.