Í Listasafni Akureyrar stendur nú yfir sýning Sigurðar Árna Sigurðssonar, Hreyfðir fletir.
Sýningin opnaði 25. ágúst síðastliðinn og stendur til 21. október næstkomandi.
Sigurður Árni Sigurðsson er fæddur á Akureyri 1963. Hann hefur unnið að myndlist í Frakklandi og á Íslandi síðan hann lauk námi frá Institut des Hautes Études en Art Plastiques í París 1991. Sigurður Árni hefur haldið tugi einkasýninga og má finna verk eftir hann í öllum helstu listasöfnum á Íslandi auk listasafna í Evrópu. Nokkur verka hans eru staðsett í opinberum rýmum svo sem Sólalda við Sultartangavirkjun, glerverkið Ljós í skugga á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og útilistaverkið L’Eloge de la Nature í Loupian, Pyrénées-Méditerranée í Frakklandi.
Myndlist Sigurðar Árna dregur athygli áhorfandans að tengslum milli veruleika og hugmynda og sambandi hluta og ásýndar. Verkin eru leikur með rými, bilið á milli hins tvívíða og þrívíða, forgrunns og bakgrunns, ljóss og skugga.
Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.