Fimm daga lista-og menningarveisla hófst í blíðskaparveðri í Reykjanesbæ í gær með setningu 19. Ljósanætur. Bæjarbúar fylltu skrúðgarðinn í Keflavík í blíðskaparveðri þegar Ljósanæturhátíðin var sett. Grunnskólabörn drógu Ljósanæturfánann að húni sem markar upphaf Ljósanæturhátíðar. Hátíðin nær hápunkti á laugardagskvöld.
Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að setning Ljósanætur hafi verið með nýju sniði þetta árið og er nú orðin að fjölskylduhátíð síðari hluta dags. Það var líf og fjör hjá 2400 börnum sem tóku sér stöðu á lóð Myllubakkaskóla á skólatíma. Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir:
„Margt var til gamans gert á setningarhátíðinni og má segja að Ljósanótt hafi beinlínis verið sungin inn. Kór nemenda hóf dagskrá á því að syngja Meistara Jakob á fjórum tungumálum sem og Ljósanæturlag Ásmundar Valgeirssonar „Velkomin á Ljósanótt“ . Ingó veðurguð tók svo við keflinu og hvatti gesti til söngs svo heyrðist um allan bæ.
Dagskráin í dag
Það sem ber hæst í dagskrá dagsins er opnun fjögurra nýrra sýninga í Duus Safnahúsum; ljósmyndasýningarnar „Eitt ár á Suðurnesjum“ og „Eitt ár í Færeyjum“, Endalaust og „…svo miklar drossíur“. Auk þess sem afsteypa af Súlunni, menningarverðlaunum Reykjanesbæjar eftir Elísabetu Ásberg verður afhjúpuð. Þá verður opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar sýningin „List sem gjaldmiðill“.