Listasafn Reykjavíkur og Nasher Sculpture Center kynna samtal listamannanna Ragnars Kjartanssonar og Theaster Gates. Listamennirnir ræða um listsköpun sína í tengslum við gjörninga. Þeir eru báðir þekktir fyrir margbrotin verk þar sem gjörningar eru hluti rýmis- og/eða myndbandsverka eða eru tímabundin inngrip í rými eða samfélag. Samtalið fer fram í kvöld kl. 18.
Theaster Gates er, eins og Ragnar, leiðandi í heimi alþjóðlegrar samtímalistar. Hann hefur alla tíð búið í fátækari hluta Chicago. Þar hefur hann beitt sér fyrir verkefnum sem eru eins konar samfélagskúlptúrar og haft umtalsverð áhrif á líf og störf íbúa fátækari hverfa Chicago.
Viðburðurinn er hluti af umræðudagskrá Nasher Sculpture Center sem haldin er árlega á ólíkum stöðum í heiminum. Nasher Sculpture Center starfar í Dallas í Bandaríkjunum og veitir árlega hin virtu Nasher-verðlaun. Theaster Gates er handhafi verðlaunanna í ár.
Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar leiðir samtalið.