Árið 2014 gaf hún út fyrstu smáskífuna sína, Hekla, við góðar undirtektir og vann tónlistarverðlaunin Kraumur á því sama ári. Þann 14. september gefur hún út sína fyrstu breiðskífu sem ber heitið Á og byggir sú plata aðallega á þeramínleik og söng.
Ástríða hennar fyrir tónsmíðum kom þegar hún uppgötvaði þeramínhljóðfærið og fór að fikta við ýmiss konar hljóðbrellur. Þá fann hún smjörþefinn af ánægjunni við ferlið að skapa eitthvað nýtt og hefur hvorki eldmóðurinn né sköpunargleðin stöðvað síðan. „Í dag á ég til að gleyma alveg stund og stað við æfingar og missi allt tímaskyn,“ segir Hekla.
Faldi sig á bak við hljóðbrellur
Að sögn tónlistarkonunnar laðaðist hún að þeramíni af tveimur lykilástæðum; fyrir það fyrsta er hljóðfærið tiltölulega nýtt og í öðru lagi fylgja engar fastar reglur um hvernig eigi að spila á það. „Þetta býður einfaldlega upp á svo ótrúlega marga möguleika, nánast takmarkalausa,“ segir hún.
„Þegar ég byrjaði vissi ég í rauninni ekkert hvað ég var að gera. Ég gerði bara „hljóðeffekta“ og kunni varla að spila neitt. Síðan gekk ég til liðs við brimbrettasveitina Bárujárn og gerði þar ýmis hljóð,“ segir Hekla.
Hljómsveitin Bárujárn var stofnuð haustið 2008 í Reykjavík og spilaði hressilegt brimbrettarokk með drungalegum undirtón. Árið 2010 var bandið sigurvegari í hljómsveitakeppninni Þorskastríðið, sem að mati Heklu var afar hvetjandi afl í að prófa sig meira áfram. „Með tímanum varð ég betri og betri í þeirri list að leika mér með alls konar mótíf, en ég lærði samt heilmikið á því að fela mig á bak við effektana.“
Tónlistarkonan er nú búsett í Berlín en ólst upp að stórum hluta á Spáni. Þá tekur hún fram að töluverð áhrif spænskrar tónlistar læðist í hennar eigin. Hekla kann sérstaklega vel við tónlistarsenuna í Þýskalandi og segir fjölbreytileikann vera einn af betri kostum Berlínar. „Það eru tónleikar úti um allt hérna og auðvelt að bæði skipuleggja og gera hluti hérna.“Aðspurð um áhrifavalda sína segir Hekla listann vera ótæmandi, en popptónlist talar sérstaklega til hennar og nefnir hún Madonnu, Kylie Minogue og Backstreet Boys sem stóra þátttakendur í hennar tónlistaruppeldi. Hvað áhrifavalda í þeramínleik varðar segir hún stöllurnar Clöru Rockmore og Pameliu Stickney koma fyrst upp í hugann.
Hún segir tónlistina fyrst og fremst eiga hvað stærsta sessinn í sínu hennar en helstu áhugamál hennar auk þess að endurraða húsgögnunum heima hjá sér eru, eins og hún segir, góðar vísindaskáldsögur og hryllingsmyndir. Þannig vill til að stór draumur hjá Heklu er að prófa sig áfram í kvikmyndatónlist og þá sérstaklega í þessum tilteknu geirum, en það væri ekki í fyrsta sinn.
Hekla hefur hingað til unnið að tónlist fyrir tvær kvikmyndir; önnur er frönsk kvikmynd og ber heitið Les Garçons Sauvages (The Wild Boys á ensku) og er þar um að ræða vísindaskáldsögu með hrollvekjuívafi. Fyrir þá mynd samdi Hekla helming tónlistarinnar á móti Pierre Desprats. Hin myndin er aftur á móti dramamynd en þar mun Hekla alfarið sjá um tónlistina. Sú mynd ber heitið Stories from the Chestnut Woods og er framleidd í Slóveníu.
Kúnstir með pítsusneið
Ástæðan fyrir því að nafnið Á kom til sem heiti breiðskífu Heklu er sú að orðið hefur svo fjölbreytta merkingu, ekki ólíkt því hvernig fólk getur túlkað ákveðna tónlist með mismunandi hætti. Allt fer það eftir því hvernig viðkomandi tengir sig við þá tilteknu hljóma sem heyrast.
Hekla bíður að öðru leyti spennt eftir viðbrögðum en heldur sér upptekinni við fleiri músíktilraunir og spilar af og til opinberlega. Aðspurð hvaða tónleikaminning standi einna helst upp úr svarar hún kát: „Einu sinni spilaði ég á þeramínið með pítsusneið. Reyndar voru aðrir sem þurftu að minna mig á það, enda var ég sjálfsagt komin fullmikið í glas á þeim tímapunkti, en ég efa ekki að upplifunin hefur reynst öðrum minnisverð.“