Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari kemur fram á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 19. ágúst og flytur sellósvítur Bachs. Svíturnar eru meðal þekktustu einleiksverka tónlistarsögunnar en Johann Sebastian Bach var einmitt í sérstöku uppáhaldi hjá Halldóri Laxness.
Bryndís hefur komið mikið fram sem einleikari og kammermúsíkant á Íslandi sem og erlendis og fjölmargar hljóðritanir hafa að geyma leik hennar.
Hún hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir leik sinn, þar má nefna Íslensku tónlistarverðlaunin í þrígang, Tónvakaverðlaun ríkisútvarpsins og síðast en ekki síst Riddarakross íslensku Fálkaorðunnar.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag til 26. ágúst og hefjast þeir kl. 16. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2.500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.