Á lokadegi sýningarinnar Djúpþrýstingur á morgun, sunnudag, munu Andreas Brunner & Veigar Ölnir Gunnarsson, undir leiðsögn Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur, spjalla um verk sín á sýningunni. Spjallið fer fram á ensku kl. 16, en sýningin er opin frá kl. 12-18 í Nýlistasafninu Grandagarði 20 (Marshallhúsið).Andreas Brunner er svissneskur myndlistarmaður sem býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk nýverið MA gráðu í mynd- list frá Listaháskóla Íslands og er með BA próf í myndlist frá Lucerne University of Applied Science and Arts. Undanfarin ár hefur Andreas byggt upp vinnubrögð sem eru ekki bundin við ákveðinn miðil, heldur felast í stöðugri endurskoðun ákveðinna hugtaka og birtast í mismunandi efnum og formum. Þessi hugtök vísa oft til breytinga innan menningar, hvernig merking er sköpuð eða verður til, sem og skynjunar á tíma og efniskenndar. Verk hans eiga sér því sameiginlegt inntak frekar en birtingarmynd.
Veigar Ölnir Gunnarsson er myndlistarmaður frá Reykjavík. Hann lauk BA prófi frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2017 með viðkomu í skiptinámi við Konstfack í Stokkhólmi. Frá útskrift hefur hann búið og starfað í Reykjavík og Den Haag ásamt því að sækja starfsnám hjá listamanninum Zoro Feigl í Hollandi. Í verkum sínum notast hann við mismunandi miðla þar sem hugmyndir um sammannlega reynslu leiða ferlið. Hliðstæður innra lífs og ytra umhverfis eru einnig hugðarefni í verkunum sem taka á sig mynd í skúlptúrum, vídeóum, gjörningum og ljósmyndum.
Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, listfræðinemi við Háskóla Íslands og yfirsetari Nýlistasafnsins, mun leiða listamannaspjallið að þessu sinni. Hún hefur komið að skipulaggningu og uppsetningu víða, til dæmis á Listahátíð Ungs fólks á Asuturlandi einnig þekkt sem LungA. Þar að auki skipulagt viðburði fyrir The Reykjavík Grapevine og einnig sýningastýrt samsýningu upprennandi gjörningalistamanna, Klapparstígur 12.
Hljóðverk Ásgerðar Birnu Björnsdóttur – Ég hef þig í vasanum verður flutt undir lok spjallsins.