Framhaldsmyndirnar í seríunni um Júragarðinn eiga það allar sameiginlegt að hverfa langt í skugga þeirrar upprunalegu. Þar tókst glæsilega að tvinna saman poppkornsbíói við sögu af brjáluðum vísindamönnum að leika Guð. Í kjölfarið hafa aðstandendur verið svolítið týndir þegar kemur að þemum og skilaboðum framhaldsmyndanna og er Fallen Kingdom engin undantekning þar.
Persónusköpuninni er ábótavant en á móti sameinast hér tveir gerólíkir helmingar í fína afþreyingarmynd sem sýnir að manneskjan er yfirleitt skepnum verst. Fyrri hlutinn er brandaralega yfirdrifinn en svo þróast sagan hægt og rólega í minniháttar en eftirminnilega „barnahrollvekju“.
Myndin er með ólíkindum vitfirrt, en uppfull af flottum senum og prýðisfínum risaeðluhasar. Trúlega er þetta besta (og grimmasta) Júraframhaldið til þessa, þó það segi í raun og veru lítið.