Eyþór Árnason sviðsstjóri Hörpu á afmæli næsta fimmtudag, en þá er hann 64 ára.
„Það er nú ekki svo merkilegt, nema það gerist alltaf á þessum degi ár hvert. En ég ætla að nota tækifærið á afmælisdaginn og senda frá mér ljóðabók,“ segir Eyþór. Ljóðabókin, Skepnur eru vitlausar í þetta, er hans fimmta.
„Þetta eru 64 ljóð, enda verð ég 64 ára svo þetta passar allt,“ segir Eyþór. „Hvað er betra en ljóðabók í svefnpokann um verslunarmannahelgina? Nei, ég segi nú bara svona!“
Eyþór býður í útgáfuhóf í Eymundsson í Austurstræti kl.17 og allir eru velkomnir.
Hamingjudagur er fyrsta ljóð bókarinnar:
Stundum vakna ég hamingjusamur
fullur af krafti
tel dúkatana í skjóðunni
kaupi gaslampa, tvo dróna
og slæ blettinn
Raka saman tíðindum
saxa í föng og
hleð upp lítinn bólstur
strengi striga yfir
sting upp góðan hnaus og
skelli ofan á svo vetrarforðinn
fjúki ekki út í buskann
Forðagæslumaðurinn
verður glaður