Leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, einnig þekkt sem Heida Reed, hefur sagt skilið við sjónvarpsþættina Poldark en persóna hennar, Elizabeth Warleggan, dó í lokaþætti fjórðu þáttaraðarinnar.
Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda í Bretlandi og fór Heiða með aðalhlutverkið í síðustu þremur þáttaröðum.
Í samtali við fréttamiðilinn The Sun segist Heiða vera leið yfir andláti persónu sinnar, en jafnframt að hún hafi vitað af því nógu lengi til þess að venjast hugmyndinni. „Ég mun sakna allra gríðarlega mikið,“ segir hún, „… nema korsettsins míns. Þess mun ég alls ekki sakna.“
Heiða segist jafnframt vera aðdáendum þáttanna gríðarlega þakklát og bætir við að hún hafi eignast framtíðarvini við tökurnar á Poldark.
Aðdáendur Poldark-þáttanna mega eiga von á einni þáttaröð til viðbótar, þeirri fimmtu, sem verður jafnframt sú síðasta.