Tvíeykið Dúo Las Ardillas samanstendur af hörpuleikaranum Sólveigu Thoroddsen Jónsdóttur, sem fæddist í Reykjavík og lútuleikaranum Sergio Coto Blanco, sem fæddist í San José í Kosta Ríka. Sólveig og Sergio kynntust í Bremen í Þýskalandi, þar sem þau stunduðu bæði nám í flutningi endurreisnar- og barokktónlistar á söguleg hljóðfæri við Die Hochschule für Künste Bremen. Tvíeykið hóf störf sumarið 2016 og hefur haldið tónleika á Íslandi, í Þýskalandi og í Kosta Ríka. Það sérhæfir sig í endurreisnarog snemmbarokktónlist og útsetur einnig íslensk þjóðlög í endurreisnarstíl. Sólveig og Sergio semja líka stundum eigin tilbrigði við gömul stef og spinna yfir bassalínur eins og tíðkaðist á endurreisnartímanum og fram á barokktímann. Á tónleikunum sem fram fara í Akureyrarkirkju sunnudaginn 29. júlí kl. 17:00 leikur Sólveig á ítalska þríraðahörpu og Sergio á endurreisnarlútu. Á efnisskránni eru verk eftir John Dowland, Orlando di Lasso, Giovanni Antonio Terzi, Pierre Attaingnant og Giovanni Maria Trabaci, sem og íslensk þjóðlög.
Tónleikarnir fara fram fara sunnudaginn 29. júlí kl. 17 og eru jafnframt síðustu tónleikar tónleikaraðarinnar Sumartónleikar í Akureyrarkirkju árið 2018. Aðsókn að tónleikaröðinni hefur verið mjög vaxandi á síðustu árum og sérstaklega góð í sumar, en yfir 500 gestir hafa sótt tónleikaröðina það sem af er í sumar. Aðgangur að öllum tónleikum er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.