Skálmöld hélt tvenna tónleika á Gauknum síðastliðinn föstudag. Langt er orðið síðan Skálmöld hélt síðast tónleika á heimaslóðum og tóku aðdáendur vel við sér.
Að eigin sögn eru Skálmaldarmenn í sínu kjörumhverfi á Gauknum, þar spiluðu þeir sína fyrstu tónleika og allir þeir sem hafa sótt Skálmaldartónleika á Gaukinn vita vel að þar myndast stemning sem er hvergi annars staðar að finna.
Skálmöld til fulltingis var hljómsveitin Meistarar dauðans sem kynntu lög af væntanlegri breiðskífu.
Fyrri tónleikarnir voru kl. 16 og hugsaðir fyrir alla aldurshópa, enda mátti þar sjá marga (upprennandi) rokkaðdáendur í yngri kantinum. Seinni tónleikarnir voru kl. 21 og voru ögn minna settlegir. Kvöldið eftir var talið í eina tónleika á Græna hattinum á Akureyri.
„Upplifði það enn einu sinni um helgina hversu íslenski þungarokksheimurinn er fallegur þegar strákarnir í Meisturum dauðans hituðu upp fyrir Skálmöld á tvennum tónleikum á Gauknum og svo fyrir norðan á Græna hattinum kvöldið eftir. Svona stuðningur stóru strákanna við grasrótina er ómetanlegur og móttökurnar frábærar, bæði sunnan og norðan heiða,“ segir Hjalti Árna sem fór á alla tónleikana með myndavélina að vopni.
Meistarar Dauðans héldu tónleika á Dillon fyrr í mánuðinum, lesa má um þá og væntanlega plötu hér.