Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur mun fylla Gljúfrastein af æsku og söng þegar hann kemur fram í fyrsta sinn í stofunni í húsi skáldsins á morgun, sunnudaginn 22. júlí.
Á efnisskránni má finna lög eftir Jóhann G. Jóhannsson, Jón Þórarinsson, Gunnar Reyni Sveinsson og Atla Heimi Sveinsson við ljóð Halldórs Laxness.
Kórinn undirbýr nú ferð til Tallin í Eistlandi á virtustu og stærstu kórahátíð Evrópu, Europa Cantat. Það verður í 13. skipti sem Hamrahlíðarkórinn tekur þátt í hátíðinni, alltaf með nýjum, ungum kórfélögum.
Hamrahlíðarkórinn var stofnaður árið 1982 og hefur um áratugaskeið verið í fararbroddi íslenskra æskukóra. Stofnandi kórsins og stjórnandi frá upphafi er Þorgerður Ingólfsdóttir.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag til 26. ágúst og hefjast þeir kl. 16. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2.500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.
Dagskrá stofutónleikanna í heild sinni.