Stjórnin á 30 ára afmæli í ár og í gær gaf hljómsveitin út nýtt lag, Ég fæ aldrei nóg af þér. Í viðtali í Popplandi á Rás 2 í gær segja Sigga og Grétar, að Grétar hafi lagst undir feld og spilað aðeins á píanóið. Textinn er eftir Braga Valdimar Skúlason.
Stjórnin er búin að vera óstöðvandi síðan hún hélt páskaball á Bryggjunni brugghúsi og er það í tilefni af 30 ára afmæli sveitinnar. Afmælistónleikar verða síðan 28. september næstkomandi í Háskólabíói.
„Við vorum tilneydd til að dusta rykið af öllu og koma með nýtt lag,“ segir Grétar.
Lagið er klassískt Stjórnarlag, en Stop Wait Go voru fengnir til að útsetja „til að fá gamla góða soundið með 2018 soundi,“ segir Sigga.
Stjórnina skipa Sigga Beinteins, Grétar Örvarsson, Þorsteinn Gunnarsson, Einar Bragi, Jón Elvar og Eiður Arnars.