„Platan er ekki það sem þú býst við þegar þú hugsar um ABBA, því ég fer allt aðra leið,“ segir Cher í viðtali við the Today Show, en platan kemur í kjölfar hlutverks hennar í Mamma Mia! Here We Go Again. Þar leikur hún Ruby, móður Donnu (Meryl Streep) og ömmu Sophie (Amanda Seyfried).
„Eftir að ég söng Fernando þá datt mér í hug að það væri mjög gaman að gera plötu með lögum ABBA, þannig að ég lét bara verða af því.“
Útgáfudagur er ekki kominn, en Cher upplýsti þó að hún færi aðra leið með lögin en ABBA gerðu.
„Ég er mikill aðdáandi, ég sá söngleikinn á Broadway þrisvar sinnum og var dansandi í salnum ásamt öðrum áhorfendum,“ segir Cher og segir það vera aðalástæðu þess að hún tók hlutverkið að sér.
Cher er sjálf aðalatriði í öðrum söngleik, The Cher Show. Bætir hún við að hún elski ABBA myndina af því að „hún sýnir konur sem hafa stjórn á eigin lífi.“