Fyrstu tónleikar Sumartónleika í Akureyrarkirkju 2018 fara fram sunnudaginn 1. júlí kl. 17. Tónleikaröðin hefur sitt 32. starfsár með tónleikum fyrir alla fjölskylduna
þar sem Dúó Stemma kemur fram.
Dúó Stemma eru Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari og munu þau fagna sumrinu með íslenskum þjóðvísum, þulum,
ljóðum og hljóðum tengdum sumrinu með dagskrá undir yfirskriftinni Ó blessuð vertu sumarsól. Einnig munu þau flytja skemmtilega hljóðsögu með hljóðfærunum
sínum. Leikið verður á ýmis hefbundin hljóðfæri, svo sem víólu og marimbu en líka óhefðbundin svo sem hrossakjálka, íslenska steina og barnaleikföng.
Herdís Anna Jónsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskóla Akureyrar 1983, Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og Hochschule fur Musik und Darstellende Kunst
Stuttgart 1992. Hún er fastráðinn víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Steef van Oosterhout lauk einleikaraprófi frá Sweelinck Conservatorium Amsterdam
1987. Hann starfaði í Hollandi með ýmsum kammerhljómsveitum meðal annars Nederlands blazersensemble og lék með sinfóníuhljómsveitum þar á meðal
Consertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam. Síðan 1991 hefur Steef verið fastráðinn sem leiðari í slagverksdeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Tónleikaröðin er styrkt af Norðurorku, KEA, Akureyrarstofu og Sóknarnefnd Akureyrarkirkju og eru partur af Listasumri á Akureyri.