Nú ríkir heljarinnar leynd yfir nýjustu og jafnframt síðustu þáttaröð Game of Thrones, en heimildir DV herma að tökulið sé statt á Íslandi um þessar mundir og hafi lagt undir sig Þingvelli. „Lögreglumótorhjól loka stóru svæði og tökuliðið hefur hent upp stóru, svörtu tjaldi yfir gjánna við Þingvallaveg. Það var rosalega mikið af krúi þarna og þeir voru að færa snjó af fjallinu inn í gjána til þess að skreyta leikmyndina. Þetta lið mætir hingað árlega og yfirleitt er ekki eins mikil leynd, en nú er bókstaflega búið að tjalda öllu til og enginn fær að vita neitt,“ segir ónefnd heimildarmanneskja sem varð vitni að tökunum.
Það hefur ekki leynt sér að stórir kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendur eru duglegir að slást um náttúruumhverfi Íslands og mætir hingað ár hvert hver risaframleiðslan á fætur annarri. Á undanförnum árum hefur verið aldeilis blómstrandi tíð í flakki framleiðenda og tökuliða til þess að festa íslenskt landslag á filmu. Þá þýðir ekki annað en að skoða aðeins hvað annað hefur brugðið fyrir á klakanum góða síðustu árin.
Krúnuleikarnir árlegu
Löngu er orðið ljóst að framleiðendur Game of Thrones þáttana eru yfir sig hrifnir af Íslandi. Tökuliðið kom hingað fyrst í nóvember 2011 þegar önnur sería var komin í vinnslu og skaut atriði bæði á Vatnajökli og Mýrdalsjökli. Síðan þá hafa verið tekin upp atriði hér á hverju ári nema árið 2014. Mörg atriði voru tekin upp í Mývatnssveit, í Dimmuborgum, Hverfelli og Grjótagjá. Þá hefur einnig verið tekið upp á Þingvöllum, við Goðafoss, í Hvalfirði og á Grundarfirði.
Dettifoss á breiðtjaldi
Það er óhætt að segja að vísindaskáldsagnarinnar Prometheus hafi verið beðið með gríðarlegri eftirvæntingu á sínum tíma. Um er að ræða forsögu hinnar sígildu Alien frá Ridley Scott en Prometheus hlaut blendnar viðtökur við frumsýningu en gátu flestir verið sammála um mikilfenglega hönnun, umgjörð og þá ekki síður i landslaginu. Ísland spilaði stóra rullu sem aðskotaplánetan LV-223. Tökur fóru fram sumarið 2011 og var myndin tekin upp nálægt Heklu í Rangárvallasýslu. Það má heldur ekki gleyma stórglæsilegri innkomu við Dettifoss í byrjun myndarinnar.
Dystópía og sambandsslit
Aldeilis fór lítið fyrir stórmyndinni Oblivion við frumsýningu og má segja að heildaraðsókn hafi ekki mætt væntingum aðstandenda. Fram að þessari framtíðar-dystópíumynd með Tom Cruise hafði engin erlend kvikmynd nýtt sér landslag Íslands í jafnstóru burðarhlutverki. Tökur stóðu yfir í júní 2012 og var mest megnis tekið upp á tveimur stöðum, annars vegar við fjallgarðinn Jarlhettur við Eystri Hagafellsjökul í Langjökli, og hins vegar við gíginn Hrossaborg á Mývatnsöræfum. Tökurnar voru þó að öllum líkindum ógleymanlegar fyrir aðalleikarann sjálfan enda þótti það vera sögulegt slúður þegar fyrrverandi eiginkona hans, Katie Holmes, skildi við hann á meðan á tökum stóð. Síðasta myndin sem náðist af fyrrum stjörnuparinu var við Laugaveginn þetta sumar.
Ísland, Grænland og Afghanistan
Leikarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Ben Stiller heillaðist svo mikið af landinu góða að hann nýtti það til hins ítrasta í gamanmyndinni The Secret Life of Walter Mitty frá 2013. Í þeirri mynd ferðast titilpersónan meðal annars til Íslands og verður vitni að eldgosi auk þess að skoða landsbyggðina á fljúgandi ferð. Kvikmyndagerðin á bakvið Walter Mitty á sér þó ýmis leyndarmál. Atriði sem eiga að gerast á Grænlandi og í Afghanistan voru einnig tekin upp hér á landi og er því sérstaklega ruglingslegt fyrir Íslendinga að horfa á myndina ef þeir þekkja til þeirra staða sem myndin sýnir. Stiller og félagar tóku upp í Stykkishólmi, á Grundarfirði, í Garðinum, í Hveradölum, við Þjórsárbrú og Skógafoss, á Breiðamerkursandi, Höfn, Seyðisfirði og í sjálfu Geirabakarí í Borgarnesi, sem dulbúið var sem pitsustaðurinn Papa Johns.
Umdeilt verk Íslandsvinar
Fjölmargir Íslendingar komu að gerð kvikmyndarinnar Noah um sumarið 2012. Biblíuepík leikstjórans Darren Aronofsky var svo sannarlega ekki allra, en í forgrunni sást hreinræktuð náttúra Íslands í allri sinni dýrð. Tökur áttu sér stað á Djúpavatnsleið, við Sandvíkurklof, Lambhagatjörn, Sandvík, Raufarhólshelli, Mývatn, Hamragarðaheiði, í Svartaskógi og fleiri stöðum. Fer því ekki á milli mála að Aronofsky er sannur Íslandsvinur í orðsins fyllstu merkingu. Þess má einnig geta að Russell Crowe varð háður íslenska skyrinu á meðan á tökum stóð.
Út í geim og beint á klakann
Ísland hefur alltaf þótt sérlega eftirsótt þegar risarnir í Hollywood eru í leit að umhverfi fyrir framandi plánetur. Með framtíðardramanu Interstellar var Svínafellsjökull mikilvægur þáttur í nokkrum spennandi hasarsenum. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hinn virti leikstjóri Christopher Nolan naut góðs af þessu svæði, enda var sami tökustaður notaður fyrir Batman Begins tæpum áratugi áður.
Mátturinn með landanum
Að undanskildri nýjustu Star Wars mynd myndabálksins, Solo, hafa allar þrjár nýju kvikmyndirnar átt í íslenskt umhverfi að sækja. Kvikmyndirnar eru The Force Awakens, Rouge One og The Last Jedi. Tökuliðið stóð vaktina meðal annars við eldgíginn Víti í Kröflu og á svörtum Mýrdalssandinum. Fjöllin við Hjörleifshöfða komu jafnframt sérstaklega vel út í skuggalegri upphafssenu myndarinnar Rogue One og blésu þau miklu lífi í plánetuna Lah‘mu.
Snöggir og snar
Bílablæti og hamagangur sameinaðist með prýði í Fast & Furious 8. Árið 2016 mætti tökuliðið til þess að skjóta tryllta og umfangsmikla hasarsenu þar sem Mývatn brá sér í gervi Rússlands. Íbúar á Akranesi fengu einnig mikla flugeldasýningu þegar aðstandendur myndarinnar sprengdu haug af spyrnuköggum í loft upp. Allt gekk vel fyrir sig á meðan tökulið og leikarar voru staddir í hasarnum, að undanskildu því þegar ofsaveður þeytti burt leikmyndum og búnaði, sem leiddi til þess að hestur lést í kjölfarið. Einnig sukku vinnuvélar í Mývatn eftir að ís brast undan þeim, en eins og landsmenn vita lætur náttúran ekki bjóða sér upp á hvað sem er.
Morð á Reyðarfirði
Í sjónvarpsþáttunum Fortitude, sem hófu göngu sína árið 2014, var Reyðarfirði breytt í smábæ sem er talinn öruggasti bær heims, en það breytist allt þegar vísindamaður er myrtur og allir íbúar liggja undir grun. Talið er að framleiðsluteymi þáttanna hafi leitað til Kanada og Noregs áður en Ísland varð fyrir valinu. Þriðja og síðasta þáttaröðin var hins vegar tekin upp á Svalbarða.
Allt tómt
Kvikmyndin Bokeh frá 2017 er mörgum ókunn, en í þeirri mynd njóta tvær ungar stjörnur samverunnar á eyðilegu Íslandi. Með aðalhlutverkin fara Maika Monroe og Matt O’Leary og segir myndin frá bandarísku pari sem ákveður að fara til Íslands í frí. Skömmu eftir komu hingað bendir allt til þess að annað fólk sé horfið af yfirborði jarðar. Reykjavíkurborg fær þarna að njóta sín ásamt Bláa lóninu og fleiri stöðum, þó raunsæi virðist ekki alveg stemma við draumakennda andrúmsloftið, sérstaklega þegar engisprettur fara að láta í sér heyra.
Svartur spegill og lestarteinar
Hin stórvinsæla sjónvarpsþáttasería Black Mirror gaf út heilan þátt – Crocodile að nafni – sem var allur tekinn upp á Íslandi. Umhverfið leyndi sér ekki og fékk bæði höfuðborgin og landsbyggðin að njóta sín til fulls. Hins vegar hefur ímyndaði hliðstæðuheimur Black Mirror eitthvað rænt Íslandi frá rótum sínum og einkennum, þar sem götuheitin voru öll erlend og vísuðu öll merki á að hér væri um spegilmynd að ræða, en samkvæmt þessum þætti eru lestarbrautir daglegt brauð í umhverfinu.
Khal Drogo talar bjagaða íslensku
Hingað til er ofurhetjusamkoman Justice League dýrasta framleiðsla sem hefur nokkurn tímann sent tökulið til Íslands. Hins vegar var þetta ekki í fyrsta skiptið sem kvikmynd með Leðurblökumanninum var tekin upp hér á landi, nema jú, þetta er fyrsta skiptið sem öllum feluleik eða blekkingum er sleppt og landið fær að njóta sín eins og það er. Til að innsigla heiðurinn sést Bruce Wayne (Ben Affleck) heilsa upp á Aquaman (Jason Momoa) á Djúpavík. Ingvar E. Sigurðsson dúkkar þarna upp sem grafalvarlegur bæjarstjóri og reynir meira að segja Vatnsmennið eftir bestu getu að spreyta sig í íslensku tungunni, með afleitum árangri. Íslenskum statistum virtist þó vera skemmt í ljósi hlátursskröltsins sem heyrðist í framhaldi af háfleygum íslenskufrasa hetjunnar.