NÝTT Í BÍÓ
Leikstjóri: Börkur Sigþórsson
Framleiðendur: Agnes Johansen, Baltasar Kormákur
Handrit: Börkur Sigþórsson
Kvikmyndataka: Bergsteinn Björgúlfsson
Tónlist: Ben Frost
Aðalhlutverk: Baltasar Breki Samper, Gísli Örn Garðarsson, Anna Próchniak, Marijana Jankovic
Íslenski spennutryllirinn er heldur snúinn geiri sem hefur ekki náð hnökralaust að blómstra í okkar kvikmyndasögu. Ef feilnóta er slegin hvað varðar tón og tilþrif leikara er þá glæpsamlega stutt í tilgerð og ávísun á kjánahroll, en þegar allt raðast rétt upp er mikið tilefni til að fagna góðum undantekningum. Vargur er einmitt merki um eitt slíkt dýr sem á erindi í góða hópinn.
Myndin segir einfalda en þráðbeina og bítandi sögu af tveimur bræðrum í bráðum fjárhagsvanda. Atli (leikinn af Baltasari Breka Samper) stendur í fíkniefnaskuld undir taum handrukkara á meðan Erik (Gísli Örn Garðarsson) lifir rándýrum lífsstíl og reynir að koma sér undan heimilismissi. Í neyð ákveða þeir að skipuleggja eiturlyfjasmygl með aðstoð pólskrar stúlku sem hefur öllu að tapa. Áætlunin er mikil áhætta fyrir en verður hvert skref viðkvæmara þegar rannsóknalögreglukona er farin að leggja saman púslin.
Með sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd sýnir Börkur Sigþórsson merki um þekkingu og örugg tök á frásögn og rennsli. Hann sækist hvorki í djúpstæðar pælingar um afleiðingar eða fjölskyldubönd og skoðar undirheimana heldur ekki undir nýju ljósi en veður hér af krafti og sjálfsöryggi í dramatrylli sem líkja má við hægan en lúmskt grípandi bruna.
Vargur er innblásin af sönnum atburðum úr íslenskum undirheimum og fær nokkra plúsa í kladdann fyrir það að sleppa við tilgerð og rembing með útkomunni. Leikstjórinn veit hvað hann syngur með tón og áferð myndarinnar. Það hangir allt á því hversu sterkir leikararnir eru og hvað togstreita persóna er trúverðug, jafnvel hressilega frústrerandi á köflum.
Baltasar Breki á ekki langt að sækja útgeislun sína (og nú er hann næstum því jafngamall föður sínum þegar hann eignaði sér Djöflaeyjuna í denn) og kemur hörkuvel út sem Atli, karakter sem er einkenndur af skelhörðu yfirborði en með bersýnilega sál sem gefur prófíl hans smávegis auka. Á móti honum hefur Gísli Örn sjaldan betur náð að beita þeim kuldalegu töktum sem hann býr yfir og kann orðið lagið á.
Sem persóna ristir pólska burðardýrið Sofia heldur grunnt en Anna Próchniak sinnir engu að síður krefjandi hlutverki og öðlast stuðning áhorfandans með upphafssenunni einni. Danska leikkonan Marijana Jankovic leikur lögreglukonuna Lenu með prýðum og gerist svo reglulega að þjóðþekktir leikarar skjóti upp kollinum til gera gott úr einkennilega þunnum rullum.
Eins og sönnum skandinavískum trylli sæmir eru stórar ákvarðanatökur persóna stundum handan skilnings en skuggalega samvera þessara einstaklinga verður engu að síður spennandi. Kvikmyndataka, hljóðvinnsla, klipping og almennt stílskraut smellir allt saman á minimalískan máta og er förðunin þess virði að rétta upp þumalinn fyrir.
Sem sögumaður er Börkur ekkert að flækja hlutina með óþörfum útskýringum og leikur hann sér ágætlega að flæði upplýsinga með samtölum sem eru oftar en ekki sannfærandi, en á milli leyfir hann sér líka að leyfa augnaráðum og líkamsbeitingu að tala. Þögnin nýtur sín til botns en tónar raftónlistarmannsins Ben Frost ryðjast svo á milli og koma púlsinum í andrúmsloftinu þegar við á.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=4xm7Hz3ej9A]