fbpx
Laugardagur 26.apríl 2025

Ritdómur um Stormfugla: Fullkomin nóvella

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 30. maí 2018 12:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason: Stormfuglar

124 bls.

Forlagið

Fyrr á tímum jafngilti sjómennska Íslendinga hermennsku á stríðstímum því mannfallið var svo ógurlegt. Þessi fullyrðing er sett fram í sögu Einars Kárasonar, Stormfuglar, og hann endurtók hana í nýlegu sjónvarpsviðtali. Fullyrðingin hittir beint í mark eins og svo margt í þessari bók – já raunar allt.

Nýfundnalandsveðrið er nafngift á óveðri sem brast á árið 1959 úti á sjó fyrir utan Nýfundnaland. Þangað flúðu mörg íslensk fiskiskip landhelgisdeiluna við Breta eftir útfærslu íslensku lögsögunnar í 12 mílur og sóttu á gjöful karfamið. Mannfall varð meðal áhafna íslenskra togara í þessu óveðri en gífurleg ísing var á sjónum og hlóðst utan á skipin. Skipverjar börðust fyrir lífi sínu með því að berja ís utan af skipunum til að varna því að þau sykkju vegna þungans.

Skáldsaga Einars Kárasonar, Stormfuglar, byggir á þessum atburðum en höfundur tekur sér það skáldaleyfi sem hann þarf til að móta listaverk úr þessum efnivið. Einar hefur valið form nóvellunnar, stuttrar skáldsögu eða langrar smásögu, til að gera þessu efni skil. Sagan er ein samfelld frásögn, gerist nánast öll um borð á einum síðutogara, fyrir utan stutt og meitluð endurlit af öðrum sviðum í huga sögupersóna. Þeir einstaklingar úr 32 manna áhöfn skipsins sem varpað er ljósi á og gerðir eru að eiginlegum persónum í sögunni eru fáir en verða lesandanum afar eftirminnilegir, þó líklega enginn eins eftirminnilegur og unglingurinn Lárus sem af og til tekur þriðju persónu frásögn sögunnar yfir í fyrstu persónu frásögn sögumanns. Lárus þráði að verða sjómaður – núna lendir hann í þessum hremmingum.

Það er oftast markmið knöppu frásagnarformanna, smásögu og nóvellu, að segja sem mest í sem fæstum orðum. Sjaldan hefur það tekist eins glæsilega og í þessu verki. Fyrir það fyrsta skrásetur sagan eftirminnilegan kafla úr þjóðarsögunni sem þarf að varðveitast. Í annan stað inniheldur sagan prýðilega aðgengilega og grípandi fræðslu um sjósókn og skipakost fyrri tíðar. Í þriðja lagi miðlar verkið sterkum, sammannlegum tilfinningum á meitlaðan og gífurlega áhrifamikinn hátt. Hún sýnir hvernig mannskepnan getur sýnt sínar fegurstu hliðar í ómannlegu andstreymi þar sem lífsspursmál er að standa saman og fórna sér í þágu heildarinnar. Hún lýsir karlmennsku gamla skólans í allra besta skilningi orðsins.

Verkið er þrauthugsað og skrifað á afar fallegu og ríkulegu máli. Um leið er textinn krefjandi. Það eru langar lýsingar á íshröngli og barningi við að berja ís af skipi. Þannig er lesandinn dreginn inn á sviðið vegna þess að hlutskipti mannanna um borð er að berja ís dag og nótt í örvæntingarfullri baráttu við dauðann. Setningarnar eru langar og það er líka fyllilega í samræmi við heim sögunnar, því tilveran við þessar aðstæður er langdregin og reynir á þrautseigju meira en nokkuð annað. Seiðmagn sögunnar leiðir lesandann yfir þessar hindranir textans.

Höfundur þessarar bókaumsagnar er ekki ungur maður og eftir því sem árin líða les hann bækur frekar með höfðinu en hjartanu. Æskufólk tekur oft flugið með uppáhaldsbókunum sínum en miðaldra og aldraðir lesendur njóta verkanna fremur með vitsmununum. Það er enginn löstur á bók þó að hún hitti ekki þennan lesanda í hjartastað. En einstaka sinnum gerist það. Stormfuglar er þannig bók. Hún gerði þennan lesanda í senn meyran og afar glaðan. Hann langaði til að hrópa að hún væri meistaraverk. Tíminn mun leiða í ljós hvort sú niðurstaða er rétt. Í millitíðinni mega lesendur þessarar greinar líta á hana sem húrrahróp.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Leikmaður Arsenal gæti tekið óvænt skref

Leikmaður Arsenal gæti tekið óvænt skref
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ísraelar birtu samúðarkveðju vegna páfa en eyddu henni síðan og bönnuðu ríkisstofnunum að senda slíkar kveðjur

Ísraelar birtu samúðarkveðju vegna páfa en eyddu henni síðan og bönnuðu ríkisstofnunum að senda slíkar kveðjur
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Arnari Þór var slaufað: „Á heimleiðinni rann upp fyrir mér að enginn þingmaður XD hafði talað við mig allt kvöldið“

Arnari Þór var slaufað: „Á heimleiðinni rann upp fyrir mér að enginn þingmaður XD hafði talað við mig allt kvöldið“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Krefjast skýrslu um meðferð á svínum – Vilja vita hvernig gasklefar og halaklippingar samræmast lögum

Krefjast skýrslu um meðferð á svínum – Vilja vita hvernig gasklefar og halaklippingar samræmast lögum
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Furða sig á ummælum Guðmundar í viðtölum í gær – „Þetta var athyglisvert“

Furða sig á ummælum Guðmundar í viðtölum í gær – „Þetta var athyglisvert“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Hinn virti blaðamaður tjáir sig um kjaftasögurnar í kringum Trent

Hinn virti blaðamaður tjáir sig um kjaftasögurnar í kringum Trent
Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Aðdáendur taka eftir svakalegum mun á milli mynda – „Þetta er bilun“

Aðdáendur taka eftir svakalegum mun á milli mynda – „Þetta er bilun“
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Ungstirni KR í íslenska hópnum og missa af leiknum við Blika

Ungstirni KR í íslenska hópnum og missa af leiknum við Blika