Veitingastaðurinn Vocal restaurant sem staðsettur er á Radisson Park Inn hótelinu í Keflavík opnaði eftir miklar umbætur í nóvember á síðasta ári. Hönnuðirnir Arnar Gauti Sverrisson og Jón Gunnar Geirdal voru fengnir til að sjá um verkið og fékk staðurinn einnig nýtt nafn, Library Bistro/bar.
Hlýlegt bistro andrúmsloft einkennir staðinn og sá Jón Gunnar um að hanna þema, lógó og tónlist, meðan Arnar Gauti sá um hönnunina sjálfa. Library Bistro/bar hefur verið einstaklega vel tekið bæði af heimamönnum og gestum og hefur verið nánast uppbókaður frá opnun.
„Þegar hugmyndir að nafni komu upp þá var nafnið Library bistro/bar valið á endanum en áður fyrr í sama húsi, en ekki í sama rými, var starfandi bókasafn Keflavíkur og þar kom nafnið ásamt því að okkur fannst einhver rómantík í þeirri tengingu. Upp frá þessu þótti okkur ljóst að hann yrði fullur af bókum og þetta hlýlega bistro andrúmsloft yrði að leiðarljósi í allri hönnunarvinnu. Bókasafn Keflavíkur reyndist okkur síðan ótrúlega vel í þessari hugmyndavinnu og lét okkur eftir nokkuð hundruð bækur í þetta verkefni.
Arnar Gauti er uppalinn í Keflavík og Jón Gunnar var mikið þar sem barn hjá ömmu sinni og afa, „við vildum því búa til sterka tengingu fyrir heimamenn á Suðurnesjum ásamt því að heiðra æskuminningar okkar héðan úr Keflavík,“ segir Arnar Gauti, „tengingin við bókasafnið var nokkuð sem okkur þótti mjög vænt um.“
Öll húsgögn, ljós og meirihlutinn af smámunum kemur frá ítalska hönnunarfyrirtækinu Dialma Brown. „Þetta er fyrirtæki sem ég tók hingað til lands þegar ég hóf störf hjá Húsgagnahöllinni þar sem ég starfa einnig í dag sem listrænn stjórnandi og ráðgjafi,“ segir Arnar Gauti.
Í síðustu viku opnaði síðan viðbót við staðinn, nýr kokteill bar og „lounge“ sem Arnar Gauti sá um að hanna og er endurbótum því að fullu lokið.
Sumarfagnaður Library Bistro bar var haldinn fimmtudag í síðustu viku og um leið var nýi kokteilbarinn formlega opnaður. Fjöldi gesta mætti til að fagna og líta nýju viðbótina augum.
„Frábært kvöld með yndislegu fólki,“ sagði Arnar Gauti hæstánægður með vel heppnað verk.