Rithöfundurinn Ragnar Jónasson hefur getið sér gott orð bæði hér heima og erlendis fyrir spennusögur sínar, en alls hefur hann gefið út níu bækur og er að skrifa þá tíundu sem mun koma út fyrir næstu jól. Bækur hans hafa komið út í og eru væntanlegar í alls 20 löndum. Hann hefur einnig þýtt fjölda bóka eftir bresku spennusögudrottninguna Agöthu Christie.
En hvaða bækur ætli séu í uppáhaldi hjá Ragnari?
Hvaða barnabók er í eftirlæti?: „Ég las mikið eftir Enid Blyton á sínum tíma og hafði mjög gaman af, til dæmis Fimm bækurnar og Ævintýrabækurnar. Þá las ég líka mikið eftir Ármann Kr. Einarsson.“
Hvaða bók er uppáhalds?: „Afleggjarinn eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Ótrúlega heillandi saga. Þá er ljóðabókin Skessukatlar eftir Þorstein frá Hamri líka í miklu uppáhaldi hjá mér, og Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh, sem er frábær blanda af leynilögreglusögu og stærðfræðibók. Af glæpasögum þá er það bók Agöthu Christie, The Murder of Roger Ackroyd.“
Hvaða bók myndirðu mæla með fyrir aðra?: „Ég mæli oftast með höfundum frekar en bókum, til dæmis Auði Övu og Þorsteini frá Hamri, en líka glæpasagnahöfundum á borð við P.D. James, Peter Temple, Ellery Queen og Peter May.“
Hvaða bók hefurðu lesið oftast?: „Sennilega einhverjar af bókum Agöthu Christie, það er alltaf gaman að lesa þær aftur.“
Hvaða bók breytti lífi þínu og hvernig?: „Ætli það sé ekki fyrsta bókin sem ég las eftir Agöthu Christie, Sólin var vitni (Evil Under the Sun), sem frændi minn lánaði mér. Sú bók leiddi til þess að ég las allar bækur eftir hana sem ég náði í og fór síðan að þýða bækur eftir hana, og loks að skrifa sakamálasögur.“
Hvaða bók bíður þín næst til lestrar?: „Um helgina ætla ég að lesa nýju bókina eftir Shari Lapena, An Unwanted Guest, en Shari verður heiðursgestur á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir, sem haldin verður í Reykjavík í nóvember og ég er að taka þátt í að skipuleggja með rithöfundafélögum mínum.“