„Ég horfi einstaklega mikið á sjónvarp og finnst fátt skemmtilegra en að horfa á góða sjónvarpsseríu eða góða bíómynd.
Það sem ég er að horfa á þessa dagana er meðal annars 2. serían af Handmaid´s Tale. Fyrsta serían var rosaleg og sería tvö gefur þeirri fyrri lítið eftir. Hrikalega óþægileg framtíðarsýn sem kemur fram í þessum þáttum. Frábærlega leiknir og á köflum erfiðir þættir. Handmaid´s Tale eru þættir fyrir vandláta.
Terror eru spennuþættir með hryllingsívafi. Byggt á sönnum atburðum og fjallar um áhöfn á skipi sem lokast inni í ísbreiðu. Svo fara áhafnarmeðlimir að týna tölunni einn af öðrum og ljóst að áhöfnin er ekki ein á ísnum. Þetta eru þættir fyrir þá sem hafa gaman af smá hryllingi.
Svo eru þættir sem að mínu mati eru bestu raunveruleikaþættir sem eru sýndir í sjónvarpi. Masterchef Ástralía. Horfði á Masterchef USA en hætti því eftir að ég kynntist þessum þáttum. Tæplega 70 þættir í seríunni, 4 þættir í viku. Hver þáttur yfir 1 klst. Algjör veisla og ég er samt ekki klár í eldhúsinu en það er eitthvað við það að horfa á fólk keppa í eldamennsku. 10. serían í gangi og verður sýnd fram í júní.“