fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024

Bryndís Schram skrifar um leikritið Svartalogn: Vestfjarðagöng sálarlífsins

Ritstjórn DV
Laugardaginn 28. apríl 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Schram skrifar um leikritið Svartalogn sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 27. apríl síðastliðinn.

Byggt á skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur
Leikgerð: Melkora Tekla Ólafsdóttir
Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason
Leikmynd: Gretar Reynisson
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Tónlist: Markéta Irglova og Sturla Mio Þórinsson
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Aron Þór Arnarsson

Þar sem ég  virti fyrir mér þessa hógværu og lítillátu konu, Kristínu Marju Baldursdóttur, höfund Svartalogns, þar sem hún stóð brosandi fremst á sviðinu, umkringd leikurum og handverksmönnum í lok sýningar, fór ég ósjálfrátt að velta því fyrir mér, hvernig henni liði á þessari stundu. Var hún ánægð? Fannst henni bókin sín, það er að segja skilaboð bókarinnar, komast til skila í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur?

Svartalogn – „himnesk kyrrð, þegar fjöllin þegjandalegu spegla sig í haffletinum, svo hann verður svartur“, segir á einum stað í bók Kristínar Marju. Einmitt þannig upplifði ég sjálf endur fyrir löngu margar stundir í djúpum firði, þar sem fjöllin eru svo há, að enginn kemst yfir þau nema fuglinn fljúgandi.

Og ég hafði einhvern veginn látið mig dreyma um, að ég væri aftur komin vestur þetta kvöld, fengi að upplifa þorpið á ný og kynnast konum eins og hinni spænsku Juane, ungversku Evu, pólsku Aniu og vestfirsku Petru „flaggskipið, sem dró á eftir sér flotann.“ Allt konur á flótta undan fortíðinni, í leit að öryggi, samastað og tilgangi í lífinu, rétt eins og Flóra, sögukona bókarinnar.

Flóru hafði verið sagt upp vinnunni fyrir sunnan, ekki orðin sextug, en „of innrömmuð“ að sögn, það er að segja of gömul. Starfið hafði svo sem aldrei verið henni lífsfylling, heldur bara venjulegt brauðstrit til að hafa ofan í sig og á. „Þurfti maður að vera sexí til að vinna almenn skrifstofustörf?, „Og það er dauðasök að vinna ekki á Íslandi.“ Eftir að henni var sagt upp, hafði hún lokað sig inni, lítið farið út. Hafði kviðið því að fara að sofa, aldrei ætlað að festa svefn. Keypti í matinn, þegar minnst var að gera í búðinni. Þá þurfti hún ekki að hitta neinn, sem segði: „Ertu ekkert að vinna?“

Þetta er fyrst og fremst saga um konu, sem stendur á tímamótum. Henni finnst hún niðurlægð og upplifir höfnun. Sjálfstraustið brostið. Og hún veltir því fyrir sér, „hvers vegna það sé svona niðurdrepandi að eldast á Íslandi.“ „Það sé allt að því skammarlegt, bara ekki reiknað með manni lengur sem fullgildum þjóðfélagsþegni.“  Þetta er kunnuglegt þema, sem hvílir þungt á öllum, sem eru komnir yfir miðjan aldur.

Fyrir einhverja tilviljun er Flóra allt í einu komin vestur á firði að mála gamalt hús. Þar kynnist hún  konum af erlendum uppruna, sem eru í svipaðri stöðu og hún sjálf. Konum, sem einhvers staðar á lífsleiðinni hafa misst fótanna, flúið erfiðar aðstæður og leitað athvarfs í djúpum firði fyrir vestan. Og þar gerist það kraftaverk, að lífið fær tilgang á ný.

Mér finnst leikmynd Grétars Reynissonar brilliant að mörgu leyti, svona til að vísa okkur veginn, til að hjálpa okkur að skilja söguna betur í upphafi. Vestfjarðagöng sálarlífsins, steinsteypt, grá og kaldranaleg.  Eins konar tenging milli hins liðna og ókomna, þess sem er að baki og þess sem er framundan. En um leið er hún til vitnis um einangrun og einmanaleika, með steypuna allt um kring.

En hvar er þorpsstemningin við enda ganganna, þar sem Flóra finnur tilgang, byrjar nýtt líf? Hvar eru húsin í brekkunni, nýmáluð og vinaleg, umvafin blómskrúði, sem lífga upp á stutt sumur? Samdráttur fólks undir gömlum eldhúsglugga í „félagsmiðstöð vinnustaðanna“? Steingöngin byrgja manni  sýn, læsa okkur inni í reykmettuðu lofti. Við erum föst, komumst aldrei út, ekkert framundan. Eru það skilaboðin?

Þegar upp er staðið í lokin, erum við engu nær. Einhver staðar á leiðinni glutrast niður meginþema verksins, um konuna, sem upplifir höfnun, missir sjálfstraustið og tekst að  vinna sig út úr því, hvort sem það er Flóra sjálf, konur af erlendum uppruna eða listakonan, sem ekki var metin að verðleikum.

Bók Kristínar Marju spannar heilar 380 síður, og það er ógerningur að koma öllu efninu að á einu kvöldi í leikhúsinu. Þótt Flóra sé sú persóna sem leiðir frásögnina, þá koma margir aðrir við sögu, sem eru ekki síður áhugaverðir. Hver og einn hefur sinn drösul að draga.

Það hefði verið gaman að fá að heyra meira um líf kvenna í Póllandi eða Ungverjalandi, eða þá um hann Jóhannes, sem hafði helgað frystihúsinu líf sitt. Og hvað vitum við svo sem um Krumma, sem beitir Juane ofbeldi og endar með því að kasta í hana snjóbolta, þar sem hún er að syngja í kirkjunni, rústar tónleikunum? Illa upp alinn fauti? Afbrýðisamur vesalingur? Hvað segir hin alvitra Petra um það? „Það er samfélagið, sem elur þennan mann, það er samfélagið, sem ákveður stöðu hvers og eins.“

Allavega, þá rís þessi ræfill ekki undir því að verða aðalpersónan í örlagasögu þessara kvenna. Enn einn Metoo fréttaaukinn hefur einhvern veginn villst inn í verkið. Sagan sjálf er miklu merkilegri en það. Allar eru konurnar áhugaverðar persónur. Allar eiga þær það sameiginlegt að hafa orðið að yfirgefa heimkynni sín í leit að nýju lífi. Skáldsagan gefur okkur til kynna, að sú leit hafi borið árangur fyrir mátt samstöðunnar og listarinnar. Þessi boðskapur verksins hefur einhvern veginn týnst í leikgerð verksins.

Í skáldsögunni skiptir það meginmáli, að allar eru þessar konur gæddar hæfilekum, sem fá ekki að njóta sín. Ein þeirra, hún Ania frá Kraká, hefur svo heillandi söngrödd, að dyr óperuhúsa Evrópu opnast, þegar röddin hefur fengið að hljóma. Hápunktur sýningarinnar í blálokin á að sanna þennan kyngikraft, en einhvern veginn tekst það ekki, þar sem Wagnersöngkonan er ekki mætt til leiks utan bókar.

Elva Ósk nýtur sín vel í hlutverki aðalpersónunnar, Flóru. Elva Ósk er einhvern veginn aldurslaus, hefur þokkafulla og látlausa framkomu, getur tekist á við hvað sem er. Líka mátulega sjóaraleg fyrir Vestfirði! Tveir Vestfirðingar (að minnsta kosti) koma reyndar við sögu í þessari sýningu, þeir Pálmi Gestsson og Baldur Trausti. Pálmi þekkir greinilega þennan Jóhannes verkstjóra í frystihúsinu frá fornu fari og ljær honum líf og lit, sem situr eftir í minningunni. Baldur Trausti í hlutverki Kanadamanns af þýskum ættum er mátulega klaufskur í samskiptum við kvenfólk,  rétt eins og hver annar Vestfirðingur!

Það var gaman að sjá mæðgur leika hvor á móti annarri í Svartalogni. (Er það ekki í fyrsta sinn, sem slíkt gerist?) Edda Arnljótsdóttir hefur fyrir löngu sannað hæfileika sína en ekki fengið tækifæri sem skyldi. Petra hennar er mátulega sérviskuleg dramadrottning. Hins vegar virðist dóttir hennar, Snæfríður Ingvarsdóttir, vera í uppáhaldi og hefur nóg að gera. Mikið augnayndi og næm á ólíkar persónur. Söngur hennar og Esterar Talíu á pólsku bergmálaði fallega í köldum veggjum Vestfjarðaganganna.

Hallgrímur átti svolítið erfitt í hlutverki hins afbrýðisama Krumma. Reiðiköst hans voru ekki alveg sannfærandi, enda hvernig átti það að vera? Birgitta og Snorri Engilberts eru eins konar sögumenn, ganga út og inn á hæla Flóru, fara hratt yfir sögu, tengja saman skáldsöguna og leikritið. Smekklega gert, en samt ekki nógu skýrt til þess að allt skildist. Það var líka gaman að sjá Ragnheiði Steindórsdóttur aftur á sviði, glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Er hún ekki holdgervingur þessa verks Kristínar Marju? Að byrja nýtt líf?

Eins og ég hef reynt að skýra, þá finnast mér skilaboð skáldsögu Kristínar Marju ekki komast til skila í þessari sýningu. Hún hefði átt betra skilið. Frásögnin er of yfirborðsleg til að vera trúverðug. Söguþráðurinn er ekki nógu skýr, reyndar of flókinn, miðað við það, að maður hafi ekki lesið bókina áður. Hilmir Snær hefur yfirleitt skýra sýn og gott lag á leikurum sínum. Honum tekst oftast að laða fram það besta í hverjum og einum. En kannski var það handritið, sem var ekki nógu gott að þessu sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Andri framlengir í Garðabæ

Andri framlengir í Garðabæ
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Vonast til að fréttirnar af Guardiola og 17,5 milljarður sannfæri Haaland

Vonast til að fréttirnar af Guardiola og 17,5 milljarður sannfæri Haaland
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“