„GusGus er ein stærsta hljómsveit sem verið hefur á Íslandi. Þeir voru eiginlega þeir einu sem komu til greina til að loka hátíðinni,“ segir Birgir Axelsson einn af skipuleggjendum hátíðarinnar.
„Eftir fjóra daga af stanslausu þungarokki er mikilvægt að skipta um gír, Páll Óskar var fyrir tveimur árum og hann grét eftir tónleikana og sagði þá vera rosalegustu tónleika sem hann hefði haldið. Það sýnir að þungarokkarar geta skemmt sér og ekki bara við þungarokk. Fyrir Austfirðinga sem eru ekki þungarokkarar en vilja upplifa hátíðina þá er líka gaman að bjóða upp á fleira. Eistnaflug er stærsti tónlistarviðburður Austurlands og mikilvægt að við stöndum undir því nafni.“
Fjöldi íslenskra og erlendra sveita spilar á Eistnaflugi; Dimma, Sólstafir, Saktmóðigur, Legend, Kontinuum og Kreator, svo aðeins nokkrar séu nefndar.
Fleiri spennandi nýjungar verða kynntar á næstunni, en sala á Eistnaflug er í fullum gangi.