Najmo Fyasko framhaldsskólanemi sem er fædd í Austur-Afríkuríkinu Sómalíu en hefur búið á Íslandi undanfarin fjögur ár. Lagið sem hún mælir með frá upprunalandi sínu nefnist Nabadaa naas la nuugo leh, en textann segir hún vera ákall til þjóðarinnar um frið og fyrirgefningu. Í texta lagsins er lögð áhersla á að ef stríðið haldi áfram muni Sómalar aldrei geta lifað góðu og hamingjusömu lífi – en til þess þurfi þeir líka nýja stjórnarskrá og almennilegt stjórnkerfi.
„Það sem þetta lag segir mér er hversu sárlega þjóð mín þarf á friði að halda, en það gerist ekki á meðan spillt ríkisstjórn er við lýði. Frá því að stríðið hófst í Sómalíu árið 1991 hefur það fyrst og fremst haft áhrif á hina verst settu – á fátæka fólkið, börn og konur – en flestir sómalískir karlmenn þurfa að berjast fyrir ákveðinn ættbálk í stríðinu,“ útskýrir Najmo.
„Flestir sem eru í ríkisstjórninni, þar með taldir forsetinn og forsætisráðherrann, búa svo erlendis í öruggri fjarlægð á meðan landið logar í stríðsátökum. Börn þessara manna búa í Evrópu og Bandaríkjunum, en ef þessi ríki vissu hvað landið hefur þurft að ganga í gegnum myndu þau raunverulega reyna af öllu hjarta að hjálpa Sómalíu. Þá væri ekki þessi spilling og landið gæti komist upp úr hjólförunum og haldið áfram.“