Nýlega kom fyrsta skáldsaga kanadíska rithöfundarins Iain Reid út hjá Veröld í þýðingu Árna Óskarssonar.
Reid, sem búsettur er í Kanada, er yngri bróðir frú Elizu Reid forsetafrúar okkar.
Reid hefur áður gefið út æviminningar sínar í tveimur bókum: A Year in the Life of an Over-Educated, Underemployed, Twentysomething Who Moves Back Home (árið 2010) og The Truth About Luck: What I Learned on my Road Trip with Grandma (árið 2013).
Ég er að spá í að slútta þessu er hins vegar fyrsta skáldsaga hans og kom hún út í heimalandinu árið 2016.
Frú Eliza er stofnandi ritlistarbúðanna Iceland Writers Retreat, ásamt Ericu Green, en þær fara fram í Reykjavík núna 11. – 15. apríl.
Höfundurinn er staddur hér á landi og verður haldinn útgáfufagnaður í Eymundsson Austurstræti mánudaginn 16. apríl kl. 17.
Bókin fjallar um Jake og kærustu hans sem heimsækja foreldra hans sem búa á frekar afskekktum bóndabæ. Ýmislegt sérkennilegt mætir unnustunni í þessari ferð og sú mynd sem hún hafði af Jake rímar illa við það sem hún upplifir. Á heimleiðinni lenda þau í blindbyl sem ber þau að auðri skólabyggingu þar sem atburðarásin tekur óvænta stefnu.
Bókin hefur slegið rækilega í gegn víða um heim og leikstjórinn Charlie Kaufman, sem tilnefndur hefur verið til Óskarsverðlauna, vinnur nú að mynd eftir sögunni, sem Notable Books Council valdi sem skáldsögu ársins.