fbpx
Þriðjudagur 22.apríl 2025
Fókus

Stærstu fréttirnar frá Berlinale

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Berlín fór fram í síðustu viku – Ein stærsta kvikmyndahátíð heims

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 2. mars 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

1. Konur gera það gott

Annað árið röð hlaut kvikmynd eftir konu Gullbjörninn, aðalverðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Það var rúmenski leikstjórinn Adina Pintilie sem hlaut verðlaunin í ár fyrir kvikmyndina Touch Me Not, en hún er aðeins sjötta konan í 68 ára sögu hátíðarinnar sem hlýtur verðlaun fyrir bestu myndina. Umræða um stöðu kvenna var einnig áberandi á hátíðinni þar sem pallborðsumræður fóru fram.

2. Djörf verðlaunamynd

Það þótti nokkuð djörf ákvörðun hjá dómnefndinni að veita Touch Me Not aðalverðlaunin, en hún er fyrsta kvikmynd Adinu Pintilie í fullri lengd, en bakgrunnur hennar er í tilraunakenndri kvikmyndagerð. Myndin er sögð vera á mörkum heimilda- og leikinnar myndar – nánast vídeóritgerð – og fjallar hún um líkamlega nánd. Þar sjást margs konar líkamar og óhefðbundnar kynlífsathafnir en það hefur gengið fram af sumum áhorfendum. Myndin hefur fengið mjög misjafna dóma, til dæmis var kvikmyndagagnrýnandi breska dagblaðsins The Guardian alls ekki hrifinn og sagði hana grunnhyggna og kjánalega.

3. … með Tómasi Lemarquis í aðalhlutverki

Það sem er enn fréttnæmara fyrir Frónbúa er að Tómas Lemarquis leikur eitt aðalhlutverk myndarinnar og er það í fyrsta skipti sem íslenskur leikari fer með eitt aðalhlutverkanna í mynd sem hlýtur Gullbjörninn.

4. Wes Anderson fór í hundana

Það kom ekki mörgum á óvart að hinn virti bandaríski leikstjóri Wes Anderson skyldi hljóta Silfurbjörninn, verðlaun fyrir bestu leikstjórn á hátíðinni. Hann var verðlaunaður fyrir brúðuhreyfimynd sína Isle of Dogs, sem er dystópísk framtíðarmynd sem fjallar um hunda í sóttkví á eyju fyrir utan Japan. Anderson hlaut sömu verðlaun fyrir síðustu mynd sína, Grand Budapest Hotel. Það var leikarinn Bill Murray sem tók við verðlaununum fyrir hönd Anderson en hann talar fyrir einn hundanna sem er í aðalhlutverki í myndinni: „Ég bjóst aldrei við því að einn daginn færi ég í vinnuna sem hundur og kæmi heim með björn.“

5. Mynd um Úteyjarmorðin frumsýnd

Á hátíðinni var frumsýnd ný leikin kvikmynd eftir norska leikstjórann Erik Poppe um fjöldamorðin í Útey árið 2001. Myndin, sem nefnist U-July 22, fjallar um daginn þegar hægriöfgamaðurinn Anders Behring Breivik myrti 69 manns, í Ósló og Útey, þar sem hópur ungra jafnaðarmanna hafði komið saman. Öll myndin er frá sjónarhorni skáldaðra fórnarlamba en byggir þó á hinum raunverulegu atburðum, og sést fjöldamorðinginn Breivik varla í mynd. Gagnrýnendur voru almennt nokkuð hrifnir af myndinni en aðstandendur fóru þó tómhentir heim af verðlaunaathöfninni.

6. Willem Defoe fær heiðursverðlaun

Bandaríski stórleikarinn Willem Dafoe hlaut heiðursverðlaun kvikmyndahátíðarinnar, en hann hefur leikið í yfir 100 myndum, mörgum þeirra með mestu kvikmyndaverkum samtímans. Hann hefur leikið allt frá illmennum úr teiknimyndasögum til sjálfs Jesú Krists.

7. Rifrildi M.I.A. og leikstjóra heimildamyndar um hana

Á hátíðinni var frumsýnd heimildamyndin MATANGI / MAYA / M.I.A. um hina hápólitísku og ögrandi tónlistarkonu M.I.A. Myndin byggir fyrst og fremst á myndefni sem hún hefur sjálf tekið upp á síðustu 22 árum og gefur einstaka sýn inn í líf hennar – meðal annars er tekist á við fjarveru föður hennar, en hann var einn stofnenda Tamíltígranna, aðskilnaðarhreyfingar Tamíla á Srí Lanka. Það var vinur hennar úr listaháskóla, Steve Loveridge, sem leikstýrði myndinni. Þó að myndin hafi fengið ágætis viðtökur var tónlistarkonan allt annað en sátt við útkomuna og lét hún þá skoðun sína skýrt í ljós á blaðamannafundum sem enduðu oftar en ekki með rifrildi milli leikstjórans og hennar.

8. Spenna fyrir Verbúðinni

Þáttaröðin Verbúðin, sem listahópurinn Vesturport er með í undirbúningi í samvinnu við RÚV, vann til svokallaðra Series Mania-verðlauna á CoPro Series-kynningarviðburðinum sem fór fram á hátíðinni. Verðlaunin fela í sér að Verbúðin mun verða með í söluráðstefnu með kaupendum sjónvarpsefnis, sem haldin verður í Lille í Frakklandi í maí næstkomandi.

9. Adam frumsýndur

Þýska kvikmyndin Adam, önnur kvikmynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur, var frumsýnd í Generation hluta kvikmyndahátíðarinnar, en sonur hennar, Magnús Maríuson, fer með aðalhlutverkið. Kvikmyndavefurinn Variety hældi sérstaklega leikrænum tilþrifum Magnúsar í myndinni.

10. Sólófrumraun Herdísar

Tónlistarkonan og kvikmyndatónskáldið Herdís Stefánsdóttir, sem íslenskir poppunnendur kannast við úr rafdúettinum East of My Youth, kom í fyrsta skipti fram undir eigin nafni á tónleikum á hátíðinni. Herdís gerði einnig tónlist við nígerísku stuttmyndina Besida sem sýnd var á stuttmyndahluta hátíðarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Lætur tilætlunarsaman áhrifavald heyra það – „Ég vona að þú verður rekinn úr ræktinni“

Lætur tilætlunarsaman áhrifavald heyra það – „Ég vona að þú verður rekinn úr ræktinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hversu vel þekkirðu Sódóma Reykjavík?

Hversu vel þekkirðu Sódóma Reykjavík?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hvað er skírdagur?

Hvað er skírdagur?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hroði ætlar að safna fyrir Barnaspítalann og vökudeild með keppni í Iron Man – „Draumurinn minn er að ég skilji eitthvað eftir mig“

Hroði ætlar að safna fyrir Barnaspítalann og vökudeild með keppni í Iron Man – „Draumurinn minn er að ég skilji eitthvað eftir mig“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Myndir af heimili Gene Hackman og eiginkonu hans vekja óhug – „Hryllingshús“

Myndir af heimili Gene Hackman og eiginkonu hans vekja óhug – „Hryllingshús“
Fókus
Fyrir 6 dögum

„Þessi innri gagnrýnandi er enn til staðar og segir oft: Nei, ekki taka þátt í þessu. Ekki gera þetta. En í dag fæ ég að ritskoða allt og svara honum fullum hálsi“

„Þessi innri gagnrýnandi er enn til staðar og segir oft: Nei, ekki taka þátt í þessu. Ekki gera þetta. En í dag fæ ég að ritskoða allt og svara honum fullum hálsi“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Óttar selur í Vesturbænum

Óttar selur í Vesturbænum
Fókus
Fyrir 1 viku

„Ozempic fætur“ er nýjasta aukaverkunin sem stjörnurnar geta ekki forðast

„Ozempic fætur“ er nýjasta aukaverkunin sem stjörnurnar geta ekki forðast