The Grizzled: Friðarboðskapur fórnarlambs Charlie Hebdo-árásarinnar
Útgefið: 2015
Leikmenn: 3–5
Lengd: 30 mínútur
Tegund: Kortaspil, samvinnuspil
The Grizzled er lítið franskt samvinnuspil hannað af Fabien Riffaud og Juan Rodriguez. Spilið vakti athygli fyrir myndskreytingarnar sem voru gerðar af myndasögulistamanninum Tignous. Tignous starfaði frá árinu 1980 hjá Charlie Hebdo og var einn af þeim tólf sem voru myrtir af íslömskum hryðjuverkamönnum þann 7. janúar árið 2015, sama ár og The Grizzled kom út.
Á frönsku heitir spilið Les Poilus sem myndi þýðast á íslensku sem hinir loðnu. Það var það sem franskir hermenn í skotgrafahernaði fyrri heimsstyrjaldarinnar voru kallaðir. Myndir Tignous af hermönnunum, sem hafa allir eigin nöfn, eru einstaklega fallegar og gefa hverjum og einum þeirra mikinn persónuleika. Þetta eru ekki miklir vígamenn, gráir fyrir járnum, heldur venjulegir fjölskyldumenn, klaufalegir og kumpánlegir.
Fyrri heimsstyrjöldin var einn af hildarleikjum mannkyns þar sem milljónum hermanna var att saman í stórorrustum sem skiluðu litlu. Lífið þar hefur verið hreint helvíti á jörð. The Grizzled hefur greinilegan friðarboðskap og skilaboðin eru að til að lifa af slíka helför verði vináttan og traustið að vera til staðar milli manna.
Það er einmitt það sem þeir sem þora að spila The Grizzled verða að gera, treysta hver öðrum og fórna eigin hagsmunum fyrir félaga sína. Samvinnuspil hafa verið einhver þau vinsælustu undanfarin ár. Spil eins og Pandemic, Forbidden Island og Hanabi hafa selst í bílförmum. Í flestum samvinnuspilum komast leikmenn upp með að spila sinn leik og hafa aðeins annað augað á hagsmunum heildarinnar. Það er ekki möguleiki í The Grizzled því þá er öllum hópnum refsað snöggt og grimmilega. Eitt feilspor getur eyðilagt allan leikinn fyrir öllum.
Leikmenn velja sér persónu sem hefur einhvern hæfileika og spilum er dreift á hópinn. Þá skiptast þeir á að spila út spilum sem öll eru slæm nema eitt. Það er jólaspilið, sem er tilvísun í jólafriðinn árið 1914 þegar hermenn, hverjir sínum megin víglínunnar, lögðu niður vopn til að syngja, gefa hver öðrum gjafir og spila fótbolta. Líkt og jólafriðurinn er þetta eina spil skammgóður vermir. Leikmenn þurfa sífellt að taka erfiðar og hamlandi ákvarðanir.
Ári eftir útgáfu The Grizzled kom út viðbótin At Your Orders! Hún bætir ýmsum möguleikum inn í spilið, svo sem eins og tveggja manna reglum. Einnig eru þar upprétt pappaspjöld fyrir hvern hermann úr grunnspilinu sem greinarhöfundur hefur ekki enn séð neinn tilgang með annan en að fylla aðeins betur út í kassann. Bitastæðast við At Your Orders! er hins vegar leiðangursspjöldin og þau gera hana þess virði að eignast. Í grunnspilinu er hver umferð keimlík hver annarri en leiðangursspjöldin hrista upp í hverri umferð og skiptast þar á skin og skúrir.
The Grizzled er erfitt, mjög, mjög erfitt spil. En í þessu tilviki er það kostur þar sem þetta er mjög stutt spil og tilvalið að grípa í sem upphitun eða eftirrétt. Mætti helst líkja þessu við flókna þraut sem leikmennirnir vinna í sameiningu og þegar hún klúðrast í fyrsta skipti eru flestir reiðubúnir í næstu tilraun undir eins. Spil eins og þetta verður að vera áskorun og The Grizzled stendur fyllilega undir því.