Timothy Morton er einn áhrifamesti heimspekingur heims um þessar mundir
Á föstudag heldur Bretinn Timothy Morton, prófessor við Rice-háskóla, fyrirlestur í Safnahúsinu. Hann er einhver eftirtektarverðasti hugsuður heims um þessar mundir og var nýlega valinn einn af 50 áhrifamestu heimspekingum heims af háskólamatssíðunni The Best Schools.
Þó að bakgrunnur hans sé í enskum rómantískum ljóðum hefur hann smám saman fært sig í átt að heimspeki og hugsun um vistfræðileg málefni. Nálgun hans er oft og tíðum óvænt, hann sækir innblástur jafnt í poppkúltúr sem hugmyndir annarra menningarheima, og er óhræddur við að búa til ný hugtök til að skýra veruleikann: „ofurhlutir“ (e. hyperobjects), „myrk vistfræði“ (e. dark ecology), „raunhyggjutöfrar“ (e. realist magic) og „möskvinn“ (e. the mesh) eru meðal hugtaka sem hann hefur kynnt í verkum sínum og dreifast nú óðfluga um heim hugvísinda og lista.
Það eru ekki síst – og kannski fyrst og fremst – listamenn sem hafa gripið hugmyndir hans á lofti og hefur hann meðal annars unnið með Björk, Ólafi Elíassyni og hinum virta sýningarstjóra Hans Ulrich Obrist. Fyrirlesturinn í Safnahúsinu ber yfirskriftina „Þú ert ekki ennþá farinn að gera vistfræðilega list“ og virðist af stuttum kynningartexta fjalla um listsköpun á tímum vistfræðilegrar meðvitundar.
Blaðamaður DV fræddist um Timothy Morton hjá Sigrúnu Ingu Hrólfsdóttur, myndlistarkonu og deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, en hún mun stýra pallborðsumræðum eftir að fyrirlestri Mortons lýkur.
Timothy Morton er í dag hvað þekktastur fyrir að velta fyrir sér þeim vandamálum sem steðja að lífríki jarðar nú á mannöld (e. anthropocene), þeim tíma í jarðsögunni þegar mannskepnan er farin að hafa afgerandi áhrif á jörðina og vistkerfi hennar, með loftslagsbreytingum, kjarnorkuúrgangi og fjöldaútrýmingu annarra lífvera. TIl að takast á við þetta vinnur hann á mörkum fræðigreina, snýr hugmyndum okkar um heiminn á hvolf. Nálgun hans á vistfræði er því nokkkuð óvenjuleg, að sögn Sigrúnar.
„Hann er ekki í liðinu með þeim sem eru stöðugt að skamma fólk og segja því að allt fari til helvítis ef það endurvinni ekki umbúðir. Rosalega mikið af umhverfisumræðunni felst í þessu, þannig að fólk er komið með gríðarlegt samviskubit þó að það eitt beri ekki ábyrgð á þessu,“ segir Sigrún.
„Morton gengst auðvitað við því að við verðum að bregðast við, taka ábyrgð og reyna að finna nýjar leiðir. En umfram allt þurfum við kannski að breyta hugsun okkar, til að geta tekið á móti þessari framtíð sem er að koma. Honum finnst dómsdagsstemningin ekkert sérstaklega gagnleg.“
Í stað þess að skammast sín hver í sínu horni þurfa manneskjur að finna nýjar leiðir til að hugsa um tengsl sín við umhverfið og alheiminn, og það er slík hugsun sem Morton reynir að þróa í verkum sínum. Hann færir meðal annars rök fyrir því að allt í veröldinni sé tengt svo óendanlega mörgum flóknum böndum að ómögulegt sé að skipta heiminum upp í mann og náttúru eða aðrar slíkar andstæður – veruleikinn sé einn stór samanflæktur möskvi.
Eitt mikilvægasta verkefnið í dag álítur hann vera að rífa niður stigveldi milli mismunandi hluta í þessum möskva, milli manns og dýra, dauðra hluta og skáldaðra fyrirbæra, örvera og „ofurhluta“, það eru fyrirbæri sem eru svo dreifð í tíma og rúmi og svo abstrakt að ein manneskja getur aldrei upplifað þá sem heild. Til þess að geta þetta telur hann að endurhugsa þurfi verufræði vestrænnar heimspeki – hugmyndir um hvaða hlutir séu til og hvernig þeir séu til – sem hann segir ávallt hafa sett manninn í miðju alheimsins og aðra hluti skör neðar.
Hann er ekki í liðinu með þeim sem eru stöðugt að skamma fólk og segja því að allt fari til helvítis ef það endurvinni ekki umbúðir.
„Morton er einn af upphafsmönnum nýrrar hreyfingar í heimspeki sem nefnist hlutmiðuð verufræði, Object-oriented ontology, skammstafað OOO. Þessir heimspekingar eiga það sameiginlegt að þeir hafna því að heimspeki þurfi alltaf að vera í tengslum við mennska vitund og allt sé hugsað út frá manninum. Jörðin og alheimurinn var til löngu áður en maðurinn var til og það er svo mikið sem maðurinn hefur ekki möguleika á að ná utan um með sínum skynfærum og tækni – og við þurfum að vera meðvituð um það.
Þessir heimspekingar vilja halda því fram að þessi mannmiðjuhyggja sé orsökin af þeim vandamálum sem við erum að glíma við núna, loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Sem hluti af þessu vilja þeir brjóta niður tvíhyggju náttúru og menningar – hafna því að það sé yfirhöfuð nokkur aðskilnaður milli manna og náttúru. En þeir vilja líka brjóta niður andstæðuna milli hugveru og hlutveru. Samkvæmt þeirra hugmyndum er allt bara hlutur,“ segir Sigrún.
„Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir þetta og einhverjir hafa ruglað þessu við hugtakið hlutgervingu. En það má benda á að það er ekki verið að segja að allir hlutir hafi sömu eiginleika, ekki verið að leggja alla hluti að jöfnu, það er bara verið að segja að sumir hlutir séu ekki meira til en aðrir.“
Þessi krafa um að maðurinn hætti að hugsa um sjálfan sig sem miðju alheimsins og gangist við jafnræði hluta og fyrirbæra alheimsins, býður upp á nýstárlegan lestur á ýmsums kenningum. Í síðustu bók sinni, Humankind, skoðar Morton til að mynda hvort hægt sé að hugsa sér kenningar Karls Marx í þessu ljósi, kommúnisma sem nær ekki einungis til manneskja heldur einnig „ómennsks fólks“, eins og hann kallar hlutina.
Morton álítur eitt allra mikilvægasta tækið til að breyta hugmyndum mannkyns um stöðu sína í alheiminum vera listsköpun og fagurfræði. „„Við búum í samfélagi þar sem öllu er skipt upp í deildir og sérhæfing er víða mjög mikil, sem er auðvitað ekki slæmt. En vandamálið er að engin ein deild nær að takast á við heildina. Margir geta greint vandann frá ýmsum hliðum en við þurfum öll að vinna saman til þess að finna nýjar lausnir. Við þurfum að vera bæði greinandi og skapandi í hugsun. Listin býr yfir ákveðnu frelsi til þess að fylgja innsæi, flétta saman ólíka þætti og kalla fram sýn sem er óræð. Þannig getum við komið auga á það sem er nýtt og séð fyrir okkur framtíðina.“
–
Fyrirlestur Timothy Morton fer fram í Safnahúsinu þann 2. febrúar kl. 13.30.