Mánudaginn 22. janúar tilkynnti þungarokkshljómsveitin Slayer að tónleikaferðalag þeirra árið 2018 yrði þeirra hinsta og kom það kannski fáum á óvart. Árið 2016 sagði Tom Araya, söngvari og bassaleikari: „Eftir 35 ár er kominn tími að ég innheimti ellilífeyrinn minn.“ Sveitarinnar sem hefur verið ein stærsta og áhrifamesta í þungarokkinu síðan hún kom fram á sjónarsviðið árið 1981. Hljómsveitin mun spila á tónleikahátíðinni Secret Solstice í Laugardalnum í júní næstkomandi. Frá þessu var greint núna klukkan 10.
Slayer vöktu athygli með fyrstu tveimur plötum sínum Show No Mercy (1983) og Hell Awaits (1985). En það var platan Reign in Blood (1986) sem breytti öllu. Platan er innan við hálftími en er almennt talinn ein sú besta sem komið hefur út. Hún olli þó einnig deilum, sér í lagi fyrir lagið Angel of Death sem fjallar um stríðsglæpamanninn og nasistann Josef Mengele sem gerði tilraunir á gyðingum í Auschwitz. Slayer fengu það orð á sig að hafa hampað nasismanum allar götur síðan en þeir hafa ávallt þvertekið fyrir það.
Stimpillinn hamlaði Slayer ekki meira en svo en næstu fimmtán árin á eftir voru þeir eitt stærsta þungarokksband heims og gáfu út fjölda vinsælla platna. Voru þeir taldir meðal „hinna fjóru stóru“ ásamt Metallica, Megadeth og Anthrax.
Ávallt hafa þeir verið þyrnir í síðu íhaldssamra og kirkjurækinna afla sem hafa sagt þá boða djöfladýrkun og tilbiðja ofbeldi. Mörgum brá þegar hljómsveitin gaf út plötuna God Hates Us All sem kom út 11. september árið 2001. Það gæti ekki hafa verið tilviljun.
Í seinni tíð hefur liðið lengra milli platna frá sveitinni og þeir ekki jafn áberandi í rokkheiminum. Fengu þeir stöðu sem nokkurs konar virðulegir öldungar sem yngri rokkarar litu til með lotningu. Síðasta plata þeirra, Repentless, kom út árið 2015.
Hryggurinn í hljómsveitinni var alltaf Araya og gítarleikararnir Kerry King og Jeff Hannemann á meðan ýmsir trommarar léku með bandinu. Árið 2011 var Hannemann bitinn af kónguló og hlaut illvæga sýkingu í handlegg. Það ásamt skorpulifur eftir áratugalanga óhóflega áfengisdrykkju drógu hann til dauða árið 2013. Hannemann var einn helsti lagahöfundur Slayer og eftir að hann lést fjaraði undan hljómsveitinni.
Anthrax, Lamb of God, Testament og Behemoth munu hita upp fyrir Slayer á lokatúrnum. Dagsetningar og staðir hafa ekki verið uppgefnar en sveitin hefur lofað að þetta verði heimstúr.