Björg Magnúsdóttir er ein þeirra sem skrifar handritið að nýjum þáttum frá Saga Film og RÚV
Forsætisráðherra með geðhvarfasýki hættir að taka lyfin sín, hegðun hans verður stöðugt ófyrirsjáanlegri og upp hefst æsileg og tragíkómísk atburðarás í beinni útsendingu. Þannig væri hægt að lýsa atburðarás nýrrar sjónvarpsþáttaraðar með vinnutitilinn „Ráðherrann“ sem Saga Film framleiðir og RÚV hefur keypt sýningaréttinn á.
Björg Magnúsdóttir, rithöfundur og dagskrárgerðarkona, er ein þriggja handritshöfunda þáttanna. „Við fórum á fyrsta fund með SagaFilm með hugmynd að pólitískri sjónvarpsseríu fyrir rúmlega fjórum árum. Þau tóku okkur ótrúlega vel og frekari þróun og skrif fóru strax í gang og hafa staðið yfir síðan. RÚV leist líka strax vel á og hefur tekið þátt í framleiðsluferlinu sem er frábært, þar sem við viljum að öll þjóðin geti horft á þegar að því kemur. Þessar vikurnar erum við að taka lokasnúning á handritunum, núna með leikstjórum sem dýpkar þetta allt saman. Stefnan er að þættirnir verði sýndir í Ríkisútvarpinu á næsta ári – sjö, níu, þrettán,“ segir Björg.
Ásamt henni koma þeir Birkir Blær og Jónas Margeir Ingólfsson að handritssmíðinni. Þau eru öll að þreyta frumraun sína á sviði handritagerðar fyrir leikna sjónvarpsþætti, en eiga það meðal annars sameiginlegt að hafa starfað á fréttastofum íslenskra fjölmiðla.
„Við vorum algjörlega óreynd á þessu svelli þegar ferlið hófst – ég hef reyndar skrifað tvær skáldsögur en það er allt annað dæmi. Ég myndi segja að það mikilvægasta við skrif-ferlið sé að nú sjáum við til lands og það er mikill áhugi á þáttunum, sem gefur okkur vísbendingar um að við höfum gert eitthvað rétt þrátt fyrir að hafa hitt talsvert margar hindranir á leiðinni,“ segir hún.
Þið eruð með mismunandi bakgrunn – en hafið þó öll unnið í fréttastofum fjölmiðla – er það reynsla sem nýtist ykkur?
„Auðvitað kynnist maður endalaust mörgum áhugaverðum krókum og kimum samfélagsins við að vinna í fjölmiðlum og hittir alls konar fólk sem nýtist sem innblástur ansi víða. Að því sögðu þurftum við að lesa okkur talsvert mikið til bæði þegar kemur að stjórnmálum og andlegum veikindum, tala við alls konar sérfræðinga, stjórnmálamenn, geðlækna og fleiri og fleiri. Við vildum sem sagt hafa úrvinnsluna á grunnkonseptinu sem „réttasta“ miðað við hvernig raunveruleikinn er og lögðum því mikið upp úr góðri rannsóknarvinnu.“
Af handritslýsingunni að dæma gæti Ráðherrann verið allt frá því að vera vitleysislegur grínþáttur yfir í það að vera hádramatískur spennuþáttur – er eitthvað hægt að segja um það hvaða leið þið ákváðuð að fara?
„Ég myndi alltaf segja að þetta sé dramatískur þáttur en líka mjög mannlegur þáttur og vonandi spennandi og skemmtilegur. Svo hefur auðvitað allt sínar kómísku hliðar ef fólk kýs að líta á þær.“
Refskák stjórnmálanna er sívinsælt viðfangsefni í listinni en hefur kannski verið sérstaklega áberandi undanfarin ár í sjónvarpsþáttum á borð við The thick of it, Borgen, Veep, House of Cards og svo framvegis og framvegis. Hafið þið fengið innblástur Frá einhverjum tilteknum sjónvarpsþáttum um svipað efnið?
„Ég er einlægur aðdáandi dönsku stjórnmálaþáttanna Borgen og man að ég hugsaði eftir að hafa horft á þá: „mig langar að skrifa íslenska stjórnmálaseríu.“ Seinna kynntist ég House of Cards og kolféll fyrir þeim, gekk meira að segja svo langt að giftast manni með eftirnafnið Underwood. Og svo fleira og fleira, Yes Minister og West Wing eru báðir stórkostlegir. Það er engin tilviljun að svona þættir hafa verið framleiddir víða um heiminn. Efniviðurinn er ótrúlega áhugaverður, hugmyndirnar endalaust margar en svo er auðvitað úrvinnslan sérstök á hverjum stað hjá ólíkum skrifteymum.“
Það má segja að nýjustu vendingar í stjórnmálum víða umheim, með uppgangi mjög óhefðbundinna stjórnmálamanna á borð við Donald Trump, hafi gert marga þessara þátta allt-að-því úrelda – raunveruleikinn hefur skotið skáldskapnum ref fyrir rass. Hvernig var að takast á við þennan nýja og undarlega stjórnmálaveruleika?
„Það er hægt að fá endalausan innblástur frá pólitík í heiminum í dag. Einhverjir segja að Trump hafi eyðilagt (trompað) alla þætti sem fjalla um stjórnmálin, en ég er ekkert endilega sammála því. Stjórnmálin og það hvernig farið er með völd hefur alltaf verið risastór hluti af hverju einasta samfélagi og bara hvar sem hópar fólks eru. Þetta er síbreytileg og endalaus uppspretta spurninga um vald, stöðu, vinsældir, siðferði og bara mannlega hegðun í allri sinni dýrð. Ég er til dæmis nýbúin með þætti sem fjalla um hvernig Medici-fjölskyldan stjórnaði Flórens á 15. öld. Og þá man maður að manneskjur, í dag eða fyrir mörgum öldum, eru alltaf sömu gallagripirnir með sömu vandamálin.“
Nú mun fólk eflaust sjá hliðstæður í Ráðherranum ykkar og ýmsum valdamiklum mönnum í heiminum í dag. Það er ekki bara Donald Trump sem hefur verið sakaður um að vera vanheill á geði heldur gengu sögur – að minnsta kosti á meðal pólitískra andstæðinga hans – um andlegan óstöðugleika Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á meðan hann var forsætisráðherra. Er handritið byggt á þessum eða öðrum svipuðum dæmum?
„Nei. Við erum að vinna með stærri hugmynd en eitthvað sem rúmast í þessum manneskjum sem þú nefnir. En það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að fá innblástur víða. Bæði hér á Íslandi og um allan heim hafa verið við völd fjöldi manna sem fólk veit ekki hvort séu klikkaðir eða snillingar eða bara á undan sinni samtíð. Og kannski í þessari umræðu verðum við að hafa í huga að andleg veikindi eru einstaklega óútreiknanleg, við erum öll á einhverju rófi, síbreytileg og allskonar.“