Í ár eru komin 20 ár síðan Einar Bárðarson steig fyrst fram sem lagahöfundur þegar lagið Farin með Skítamóral kom út. Lagið var fyrsta lagið sem Einar samdi og gaf út og urðu vinsældir þess slíkar að ekki var aftur snúið. Á 20 ára ferli liggja eftir hann rúmlega fimmtíu lög sem komu út í kringum síðustu aldamót.
Hann samdi mörg af vinsælustu lögum Skítamórals, Á móti sól og Nylon flokksins. Þá samdi hann vinsæl lög fyrir flytjendur á borð við Stjórnina, Björgvin Halldórsson, Jóhönnu Guðrúnu, Ingó og Veðurguðina, Hvanndalsbræður, Garðar Thór Cortes, og fleiri. Einar varð síðan heimsþekktur á Íslandi þegar lag hans, Birta, vann forkeppni Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva.
Ferill Einars er mjög sérstakur þar sem hann er einn örfárra höfunda á Íslandi sem aldrei hefur flokkast sem flytjandi enda hefur hann aldrei gefið út efni undir eigin nafni eða komið fram sem slíkur.
Í tilefni 20 ára höfundarafmælis síns heldur Einar sögustund og singalong tónleika í Bæjarbíói föstudagskvöldið 16. nóvember. Vel valin lög af ferli hans eru einnig í endurgerð, auk nýs efnis, og stefnt er á útgáfu safnplötunnar Myndir fyrir jól.
Fyrsta lagið sem lítur dagsins ljós í því verkefni er nú útgáfa af Ég sé þig sem kom út með Björgvini Halldórsyni árið 2002. Af því tilefni sagði Björgvin í viðtali við Morgunblaðið: „Við vorum að hlusta á lög og ég heyrði fyrir slysni lag eftir Einar sem hann raulaði sjálfur við píanóundirleik. Mér leist strax vel á þetta lag og kom mér á óvart hvað hann er góður söngvari.”
Lagið kom út á safnplötu sem hlaut nafnið Bestu ballöður Björgvins, en lagið hefur í tímans rás áunnið sér þann rétt að vera kallað það.
Jóhanna Guðrún og Gospelkór Jóns Vídalín flytja þessa rómuðu ballöðu í nýrri útgáfu.
Fjöldi frábæra söngvara koma fram á tónleikunum. Meðal gesta eru Magni, Gunnar Óla, Einar Ágúst og Ingó. Lagalistinn er í vinnslu, en lög eins og Spenntur, Farin, Myndir, Ennþá, Ég sé þig, Birta, Keyrðu mig heim, Allstaðar, Tætt, Síðasta Sumar munu hljóma ásamt fleiri lögum.
„Einnig eitt glænýtt lag sem er á leiðinni í spilun sem ég hlakka mikið til að bera undir þjóðina,“ segir Einar.
Tónlistarmenn á tónleikunum verða Þórir Úlfarsson á hljómborð og píanó. Eiður Arnarsson á bassa, Hannes Friðbjarnarson á trommur og Kristján Grétarsson á gítar. Sjálfur mun Einar spila með á gítar og syngja eitthvað af dagskránni og segja sögurnar á bak við lögin.
„Þetta eru Sing-a-long” tónleikar og þannig er öllum frjálst að taka undir,“ segir Einar.