„Það er nú með þetta eins og flest annað í mínu lífi að þetta er yfirleitt eitthvað sem ég ætlaði mér ekkert að gera. Þegar ég gef út ævisöguna mína þá á hún að heita „Ég ætlaði alls ekki að gera þetta.“
Þetta segir Jón Gnarr í ítarlegu viðtali við Guðrúnu Sóley á RÚV í tilefni þess að hann fagnar 20 ára afmæli uppistandsins Ég var einu sinni nörd með því að setja sýninguna aftur upp en nú nokkuð breytta, að þessu sinni í Hörpu en fyrir 20 árum var sýningin í Loftkastalanum. Jón segir að hann hafi aldrei ætlað að vera grínisti heldur bílstjóri. Hann er með meirapróf og vinnuvélaréttindi.
Hann segir að undirbúningur hafi gengið vel en skiptist á að vera ofsaglaður og spenntur yfir í hræðslu um að hann verða sér til skammar og enginn skelli upp úr.
„Síðan hugsa ég: þú átt eftir að vera uppi á sviði og þú átt eftir að gleyma þessu öllu saman, átt ekkert eftir að muna hvað þú ætlaðir að segja, verður þér til skammar og fólk á bara eftir að hlæja að þér.“
Þá rifjar Jón upp gömlu sýninguna og leggur áherslu á að efnistökin í uppistandinu í Hörpu verði svipuð og í upprunalegu sýningunni.
„Í gömlu sýningunni minni byrja ég á að lýsa því yfir að ég hafi átt ömurlegt líf. Ókei, nú er ég 20 árum seinna – hvað er ég núna? Jú, ég er munaðarlaus. Er hægt að vera á ömurlegri stað í lífinu en vera munaðarlaus?“ spyr Jón en skellur svo upp úr. Hér má horfa á viðtalið í heild sinni.