fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Reiði elur af sér meiri reiði

Bíódómur: Three Billboards Outside Ebbing, Missouri

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 19. janúar 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin Three Billboards Outside Ebbing, Missouri segir frá hrottalegu morði sextán ára stúlku og hvernig móðir hennar Mildred Hayes (Frances McDormand) tekst á við áfallið og þá staðreynd að sjö mánuðum eftir morðið hafa ekki enn fundist neinar ábendingar eða sannanir um afbrotamann. Langþreytt á aðgerðaleysi lögreglunnar í smábænum Ebbing í Missouri, ákveður hún að leigja auglýsingapláss á þremur skiltum við bæjarmörkin, með umdeildum skilaboðum handa lögreglustjóranum William Willoughby (Woody Harrelson). Lögreglan, með lögreglumanninn Jason Dixon (Sam Rockwell) fremstan í flokki, kann illa við aðferðir Hayes og brátt magnast spennan á milli þeirra uns uppgjör er óumflýjanlegt.

Three Billboards er þriðja kvikmyndin frá Óskarsverðlaunahafanum Martin McDonagh og er hann leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur. Í helstu hlutverkum eru Frances McDormand, Sam Rockwell, Woody Harrelson og Caleb Landry Jones.

McDonagh fékk hugmyndina að handritinu þegar hann sá sambærilegt skilti á ferðalagi „einhversstaðar í Georgíu í Florída“ og voru hlutverk McDormand og Rockwell skrifuð með þau í huga. Eftir að hafa séð myndina finnst manni enginn annar koma til greina í hlutverkin.

Three Billboards var tilnefnd til sex Golden Globe verðlauna núna í janúar og hlaut fjögur þeirra: besta mynd í flokki dramamynda, McDormand og Rockwell fyrir besta leik og fyrir besta handrit. Myndin var einnig tilnefnd fyrir bestu leikstjórn og bestu frumsömdu tónlist. Hún er tilnefnd til níu verðlauna á BAFTA (bresku óskarsverðlaununum) sem fram fara þann 18. febrúar næstkomandi og er líklegt að hún fái nokkrar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna, en tilnefningar til þeirra verða kynntar þriðjudaginn 23. janúar næstkomandi.

Þegar þetta er skrifað er myndin með 8,6 á IMDB auk þess sem hún hefur fengið gríðarlega góða dóma meðal gagnrýnenda víðast hvar. Myndin hefur einnig eins og áður sagði þegar hlotið Golden Globe verðlaun og mun að öllum líkindum hljóta nokkur Óskarsverðlaun. Gæðaleikarar eru í öllum hlutverkum, stórum sem smáum, en að mínu mati ber Rockwell hæst, sem fordómafulli, heimski og lati lögreglufulltrúinn Dixon, sem býr enn hjá móður sinni sem kyndir undir vitleysunni í honum.

Three Billboards er svo sem ekkert að finna upp hjólið: glæpur, fráskilin móðir sem berst fyrir réttlæti, heimskir lögreglumenn, fordómar, smábær og svo framvegis. En öllu þessu er pakkað saman með góðu handriti og gæða leik í frábæra mynd sem er ein af betri myndum síðustu ára. Og þrátt fyrir einstaka smáatriði, sem eru þreytt, eins og til dæmis þarf nýja kærasta fyrrverandi alltaf að vera bara með eina heilasellu starfandi?, þá draga þau ekki úr gæðum myndarinnar.

Three Billboards er einfaldlega gæðamynd sem þú ættir að drífa þig að sjá til að vera með í umræðunni um hvaða mynd er besta mynd síðasta árs (ára).

Three Billboards Outside Ebbing, Missouri er komin í sýningar í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói, Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu