Í kvöld kl. 20 ætla Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Sabína Steinunn Halldórsdóttir að fjalla um grunngildi fyrir börn, m.a um náttúruást, gildi útiveru á skynþroska barna og lífsgæði til frambúðar. Einnig munu þau ræða áhrif tækninnar og hugtakið náttúruónæmi bera á góma.
Viðburðurinn fer fram í Menningarhúsinu í Gerðubergi 3-5.
Hvaða máli skiptir náttúran í hversdagslífi barna? Efli útivera seiglu barna? Getur verið að tæknivæðingin komi í veg fyrir hreyfingu og reynslu af náttúrunni?
Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um hvers konar líferni er eftirsóknarvert. Gestir taka virkan þátt í umræðum og hafa margir fengið gott veganesti eftir kvöldin og hugarefni til ræða frekar.
Gunnar Hersveinn hefur umsjón með heimspekikaffinu og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefnin. Hann hefur m.a. skrifað bókina Gæfuspor – gildin í lífinu. Sabína Steinunn Halldórsdóttir er íþrótta- og heilsufræðingur sem einnig er menntuð sem sjónráðgjafi. Hún hefur skrifað bækurnar Færni til framtíðar og Leikgleði – 50 leikir.