fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Silja Aðalsteins skrifar leikdóm um Allt sem er frábært – „Aðferðin sem Valur Freyr beitir er einlægni og hún fer honum vel“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 17. september 2018 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Silja Aðalsteinsdóttir, íslensku- og bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri skrifar á heimasíðu Tímarits Máls og Menningar leikdóm um Allt sem er frábært sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu á föstudag.

Höfundur: Duncan Macmillan
Þýðing: Kristín Eiríksdóttir
Leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon
Leikari:  Valur Freyr Einarsson
Ljósmyndir: Grímur Bjarnason

Áður en ég settist við að skrifa um sýninguna Allt sem er frábært eftir Duncan Macmillan, sem var frumsýnd á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi, las ég viðtal við Charlotte Bøving í Fréttablaði dagsins. Þar segir hún frá sýningu sem hún er að vinna um dauðann, séðan frá lífinu. Mér fannst þetta skondið af því að í verki Macmillans er þessu öfugt farið: þar er horft á lífið frá dauðanum.

Sögumaðurinn í Allt sem er frábært (Valur Freyr Einarsson) var sjö ára þegar mamma hans reyndi fyrst að farga sér. Það hefur djúp áhrif á drenginn – hversu djúp kemur ekki í ljós fyrr en hann er orðinn fullorðinn – honum finnst furðulegt að mamma hans skuli ekki sjá kostina við lífið. Til að hjálpa henni að sjá ljósið fer hann að safna á lista öllu sem gerir lífið þess virði að lifa því og byrjar á ís með dýfu. (Mynd af Val Frey með ís í formi prýðir einmitt forsíðu leikskrár!) Hvort sem það er listanum að þakka eða einhverju öðru verður tíu ára bið á því að mamma reyni aftur en þá bregst unglingurinn eða ungi maðurinn öðruvísi við en barnið. Hann verður bitur og árásargjarn. Kannski finnur hann að óttinn hefur blundað í honum öll þessi ár. En listinn góði hjálpar þeim enn á fætur og svo skemmtilega vill til að listinn leiðir saman á óvæntan hátt sögumann og kærustuna Maríu svo úr verður hin fallegasta ástarsaga. En jafnvel hún getur ekki unnið bug á óttanum og þyngslunum í brjóstinu.

Þessi lýsing lofar kannski ekki góðu um skemmtilega leiksýningu en veldur hver á heldur. Duncan Macmillan treystir leikaranum til að búa til sýningu sem fjölmargir áhorfendur verða hluti af; Ólafur Egill Egilsson leikstjóri hefur valið leikara sem hann treystir fyrir sitt leyti og Valur Freyr treystir áhorfendum satt að segja alveg makalaust vel til að leika með sér. Margir þeirra fá í hendur miða með númeri og setningu í byrjun sýningar og þegar hann kallar upp númerin á listanum yfir lífsins lystisemdir – eins og stjórnandi í bingó – svarar einhver manneskja í salnum! Fáeinir áhorfendur fengu ennþá stærri hlutverk sem ekki er rétt að fara nánar út í því þetta þarf að koma hverjum nýjum sal á óvart. Í rauninni er sýningin eins og uppistand með þátttöku fólks í sal þannig að sýningarnar hljóta að verða ólíkar innbyrðis. Einn þeirra sem fékk hlutverk í gær sagði eftir sýninguna að hann ætlaði að búa sig betur undir hlutverkið og fara svo aftur!

Ég held að ég geti alveg fullyrt að allir þeir sem „fengu hlutverk“ í gærkvöldi hafi notið þess í botn.

Allur þessi spuni inni í verkinu veldur því að það er eins og leikritið sé samið á íslensku (og jafnvel á staðnum!) en auðvitað er megnið af textanum eftir Macmillan. Þýðing Kristínar Eiríksdóttur var virkilega fín og allt rann áreynslulaust saman, þýðing og spuni.

Valur Freyr Einarsson hefur vaxið mikið sem leikari á undanförnum árum og er ógleymanlegur í sýningum eins og Tengdó, Njálu og 1984. Hér fær hann útrás fyrir fjölmarga hæfileika sína, til dæmis dansar hann og syngur auk þess sem hann reynist firna góður í spretthlaupi. Hann ræður einstaklega vel við að vera einn á sviði og þó að sýningin sé hátt í 100 mínútur án hlés varð aldrei vart við hik hjá honum. Aðferðin sem hann beitir er einlægni og hún fer honum vel. Hjálpartæki hans eru – fyrir utan miðana – einkum öll lögin (kannski heldur mörg) sem hafa skipt máli í lífi hans og við fáum að heyra. Lýsingunni var líka skemmtilega beitt til að sýna hugarástand sögumanns; svo dæmi sé tekið varð hún ísköld þegar mamman reyndi í annað sinn en beinlínis sjóðandi heit þegar sögumaður varð ástfanginn af sinni Maríu. Baldvin Þór Magnússon sá um hljóðið en Þórður Orri Pétursson um lýsinguna.
Félaga mínum á sýningunni fannst hún of löng og ég get tekið undir það að þar teygðist heldur mikið úr seinni hlutanum. En Duncan Macmillan er maður með köllun í þessu verki. Hann vill stappa stálinu í sorgbitið fólk og verkefnið er vel komið í höndum Vals Freys og leikstjóra hans.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“