Tónlistarmaðurinn Karl Olgeirsson gaf föstudaginn 14. september út Mitt bláa hjarta, 14 nýja jazzsöngva í nótnabók og hélt sama kvöld útgáfutónleika í Hannesarholti, þar sem hann söng lögin upp úr bókinni og sagði sögur tengdar þeim.
Karl var í viðtali í DV fyrir stuttu þar sem hann sagði frá þessu verkefni, en í lok október kemur út tvöföld vínylplata og geisladiskur sem Karl er að safna fyrir á hópfjármögnunarvefnum Karolina Fund. Mitt bláa hjarta er fyrsta sólóplata Karls, sem hefur lifað og hrærst í tónlist frá barnsaldri.
„Eitt laganna samdi ég eiginlega fyrir Elly Vilhjálms og Ettu James,“ segir Kalli, en það er Sigga Eyrún, kona hans, sem sér þó um að syngja það af stakri list. Jóel Pálsson blæs frábært og þróttmikið tenórsaxsóló.