fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Ritdómur um Meistararnir: Rosknir kappar og ævintýri þeirra í Finnlandi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 14. september 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjörtur Marteinsson: Meistararnir

Útgefandi: JPV

217 bls.

 

Skáldsagan Meistararnir eftir Hjört Marteinsson fjallar um fremur óvenjulegt efni: Keppnisferð nokkurra roskinna frjálsíþróttamanna á Evrópumót öldunga í Finnlandi árið 1972. Með fullri virðingu fyrir þessu viðfangsefni þá er það mjög sérhæft og höfðar ekki nema til fremur þröngs hóps. Skáldsaga með þessu efni þarf því klárlega að vísa út fyrir og kafa undir það, ofan í sammannlega reynslu.

Sögumaður er tíu ára drengur sem fer með afa sínum á Evrópumótið í Finnlandi. Sagan byrjar afbragðsvel. Hjörtur er flinkur stílisti og honum lætur vel að lýsa vafstri hinna fullorðnu garpa frá sjónarhorni ungs drengs. Tíðarandi og andrúmsloft Reykjavíkur á seinni hluta 20. aldar birtist ljóslifandi. Lýsingar á keppnisskapi og sérvisku öldunganna eru framan af skemmtilegar. Hjátrú er áhugaverður þáttur í lífi íþróttamannsins og hvarf keppniskringlu afans gengur eins og rauður þráður í gegnum þessa sögu, en kringlan færir afanum mikla gæfu í keppni. Hvarf og fundur kringlunnar hefði verið góður þráður í 20–30 blaðsíðna smásögu en heldur ekki uppi rúmlega 200 blaðsíðna skáldsögu. Þegar upp er staðið er þessi þráður allt of fyrirferðarmikill í sögunni.

Þegar komið er til Finnlands tekur lestrarnautnin að minnka. Umhverfið er lesandanum ekki lengur kunnuglegt og verður ekki nægilega áhugavert í meðförum höfundar, sem kýs að eyða miklu púðri í tvær senur; annars vegar ryskingar á veitingastað, hins vegar baráttu um að klófesta aftur happakringluna sem týndist. Báðir kaflarnir eru ærslafullir en ekki sérlega fyndnir. Endurfundir afans og gamallar ástmeyjar eru áhugaverðir en áhuginn á þeim fjarar út því ekki er kafað djúpt í sambandið og það verður ekki nægilega spennandi er á líður.

Hér hittum við á helsta galla þessarar vel skrifuðu sögu: Það skortir dýpt. Foreldrar sögumannsins koma ekki við sögu en við fáum aldrei að vita orsökina fyrir fjarveru þeirra né upplifa hugsanlega harminn á bak við þetta hlutskipti; drengurinn er bara fullkomlega hamingjusamur í garpaheimi afans.

Léttur og gamansamur tónn er í sögunni sem oft nýtur sín vel, sérstaklega framan af, en það skortir á að sjáist í óhjákvæmilegan harminn undir gamanseminni. Sem dæmi þá verða tvö óvænt og sorgleg dauðsföll í keppnisferðinni en umfjöllunin um þau er svo kaldranaleg að þau snerta lesandann ekki hið minnsta.

Þegar upp er staðið er sagan of upptekin af sértækum heimi kúluvarpara, kringlukastara og spjótkastara og nær ekki að fanga nógu vel mannleg örlög og tilfinningar, sagan er einfaldlega ekki nógu áhugaverð, það vantar meiri dramatík.

Meistararnir er vel skrifuð og vönduð saga eftir hæfan höfund. Það er óþægilegt að geta ekki gefið slíku verki eindregin meðmæli og lesendur eru beðnir um að hafa í huga hvað bókmenntamat er einstaklingsbundið. En það verður ekki utan af því skafið að mér þótti sagan ekki nógu bitastæð. Þegar líður á stendur maður sig að því að kinka kolli með sjálfum sér og hugsa: „Já, þetta er bara snoturt, þetta er bara sniðugt,“ án eiginlegrar hluttekningar, og maður fer að telja blaðsíðurnar sem eru eftir og bíða eftir því að ljúka við bókina svo hægt sé að fara að lesa eitthvað annað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“