Í kvöld kl. 20 hefst fyrsta ljóðakaffi Borgarbókasafnins í Menningarhúsinu í Gerðubergi. Svikaskáld lesa upp úr verkum sínum og spjalla um eigin skrif. Hvernig fara sex skáld að því að skrifa saman bók?
Svikaskáld er sex kvenna ljóðakollektív, skipað þeim Fríðu Ísberg, Melkorku Ólafsdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Þóru Hjörleifsdóttur og Þórdísi Helgadóttur. Svikaskáld hafa sent frá sér bækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd (2017) ogÉg er fagnaðarsöngur (2018).
Svikaskáldin eru ung og upprennandi skáld og var því upplagt að bjóða þeim að ríða á vaðið í fyrsta Ljóðakaffi Borgarbókasafnsins. Þær kynntust í ritlist í Háskólanum og áttu það sameiginlegt að eigin sögn að vera haldnar fullkomnunaráráttu hvað varðar texta. En skyldi það hafa breyst? Hvað varð til þess að þær tóku skrefið og gáfu út ljóðabók?
Eftir að við höfum heyrt þær lesa upp og fjalla um ljóðin sín er gestum frjálst að spyrja skáldin spjörunum úr.
Ljóðakaffi er vettfangur fyrir alla að lesa upp ljóðin sín. Eftir hlé eru ljóðaáhugamenn og skáld meðal gesta hvattir til að lesa upp ljóð sem þeir hafa geymt í skúffunni eða í tölvunni. Ekki láta fullkomnunaráráttuna stoppa þig. Taktu skrefið og komdu upp úr skúffunni.
Ljóðakaffi er nýr viðburður sem verður í bland við Sagnakaffi annan miðvikudag mánaðarins í Gerðubergi. Jafnframt er boðið upp á handverkskaffi, heimspekikaffi, leikhúskaffi og bókakaffi á miðvikudagskvöldum í menningarhúsum Borgarbókasafnsins.
Ljóðakaffi fer fram í kaffihúsinu í Gerðubergi og geta gestir fengið sér kaffi og með því á meðan á dagskrá stendur.
Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Ókeypis aðgangur.