fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Húmorslaus stemning í The Happytime Murders: Linar partíbrúður í tímaskekkju

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 3. september 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

The Happytime Murders virðist rísa og falla á einni einfaldri (og innantómri) grunnhugmynd. Hún lýsir sér þannig að það sé skilyrðislaust stórfyndið að fylgjast með leikbrúðum blóta, dópa og stunda fleiri ódönnuð dólgslæti. Handritsgerð eða hugmyndaflug með þessum tiltekna húmor fer rakleiðis í aftursætið. Þá stendur í rauninni eftir fátt annað en langdregin sketsamynd sem óskar þess að eiga roð í flugbeittu hnyttnina sem einkenndi t.d. Team America – þar sem háðsádeila og samtímagrín flutti ruddaskapinn á efra plan.

Staðreyndin er sú að The Happytime Murders hefur einfaldlega komið út röngu megin við aldamótin. Þetta er mynd sem ber 16 ára aldurstakmark en er í rauninni gerð handa 12 ára krökkum og styðst við 20 ára gamla brandara. Þá fellur ekki niðurstaðan aðeins í skuggann á ofannefndri brúðumynd, heldur líka uppátækjasemi efnis á borð við Crank Yankers sjónvarpsþættina eða Meet the Feebles frá Peter Jackson.

Það er erfitt að binda líflínuna við brúður í tómu lúalagi þegar aðstandendur eru langt frá því að vera fyrstir í mark, en ófrumlegheit má alltaf fyrirgefa þegar efniviðurinn er tenntur og heldur athygli. Hér er notast við þá hundgömlu tuggu að matreiða skopstælingu á harðsoðna „noir-geiranum“ og sárvantar skarpari eða breiðari vinkil. The Happytime Murders tekur helstu spæjaraklisjurnar fyrir (kynlíf, dóp, svik, kúgun, félagaerjur o.þ.h.) með lítilli meðvitund fyrir þeim klisjugildrum sem handritshöfundar lenda sjálfir í.

Það eina sem gerir verkið eitthvað merkilegt að lágmarki er vissulega aðkoma Brians Henson, son Prúðuleikaraföðursins Jim Henson (og þess má geta að Brian leikstýrði sömuleiðis einni bestu mynd þeirrar seríu, sem er Muppet Treasure Island). Þessari staðreynd fylgir auðvitað loforð um að brúðuvinnan sé til mikillar fyrirmyndar og hönnunin á ýmsum fígúrum skrautleg. Lengra nær það hins vegar ekki þegar persónurnar sjálfar – hvort sem þær eru handstýrðar eða af holdi og blóði – eru svona bragðlausar.

Áreynsluleysi er vanmetinn galdur í groddaragrínmyndum og það nær The Happytime Murders aldrei að mastera. Hún svitnar af rembingi og virðist Henson vera sannfærður um að kjaftagangurinn haldi merkilega bröttum sýningartíma á lofti. Myndin er rétt í kringum 70 mínútur en nær samt lítið á þeim tíma að koma með sögu, skítsæmilega persónudýnamík eða spennandi framvindu til þess að réttlæta þessa lengd sína af viti þegar hálftími hefði dugað.

Það má lengi tönglast á því sem þessi mynd nær hvergi tökum á, en það hversu ískyggilega ófyndin og fyrirsjáanleg hún er við hvert horn er hennar alvarlegasta brot. Það telst til mikils sigurs ef hálfu flissi er náð á þessum sýningartíma. Þar að auki þarf einhver loksins að flytja Melissu McCarthy þær fréttir að mikill kjaftur er ekki alltaf samasemmerki á hláturskast. Á góðum degi (og sérstaklega með efnilegt handrit) er ýmislegt hægt að gera gott við nærveru McCarthy, en þessi bíómynd dregur út hennar verri hliðar. Vonandi fær umbinn hennar vænt spark í heilaga svæðið eftir svona frussandi flopp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“