Nú er komið að tíundu og síðustu tónleikunum í sumartónleikaröð Schola cantorum, kammerkórs Hallgrímskirkju. Kórinn hefur fengið glimrandi móttökur í sumar og glatt marga tónleikagesti með töfrandi og áhrifamiklum söng. Unnendum kórtónlistar gefst nú kostur á að láta hlýjan og fagran söng umvefja sig áður en að haustið skellur á.
Miðvikudaginn 29. ágúst kl. 12 syngur hinn margrómaði kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, íslenskar og erlendar kórperlur eftir Jón Ásgeirsson, Jón Nordal, Sigvalda Kaldalóns, Händel, Byrd, Bruckner, Mendelssohn og Hjálmar H. Ragnarsson. Stjórnandi er Hörður Áskelsson. Tónleikagestum er boðið í kaffi og spjall við meðlimi kórsins að tónleikunum loknum. Miðaverð 2.500 kr.
Miðvikudaginn 29. ágúst kl. 12: Schola cantorum
Efnisskrá:
Vorvísa Texti: Halldór Laxness 1902‒1998
Músik: Jón Ásgeirsson *1928
Stóðum tvö í túni Texti: Þjóðvísa / Icel. traditional
Músík: Ísl. þjóðlag / Icel. traditional
Úts./ Arr.: Hjálmar H. Ragnarsson *1952
Smávinir fagrir Texti: Jónas Hallgrímsson 1807‒1845
Músik: Jón Nordal *1926
Á Sprengisandi Texti: Grímur Thomsen 1820‒1896
Músik: Sigvaldi Kaldalóns 1881‒1946
Úts./ arr.: Jón Ásgeirsson
Ave Verum Corpus Texti: Latneskur hymni / Latin hymn
Músik: Willian Byrd 1540‒1623
Herr, nun lässest du Texti: Luk. 2. 29–37
Músik: Felix Mendelssohn-Bartholdy 1809‒1849
Locus iste Músik: Anton Bruckner 1824‒1896
Dagur er nærri Kristján Valur Ingólfsson, *1947
Músik: George Fridrich Handel 1675‒1759
Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn „Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017 og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju (áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl 2017, þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times og fleiri. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.