Finnski uppistandarinn Ismo Leikola snýr aftur í Tjarnarbíó. Að þessu sinni með sýninguna Words Apart. Þetta verður í annað sinn sem Ismo treður upp í Tjarnarbíó en í fyrra troðfyllti hann salinn tvisvar. Jono Duffy hitar upp.
Words Apart fer fram á ensku en Ismo hefur sérstakt lag á því að skoða merkingu enska tungumálsins út frá sjónarhorni aðkomumannsins. Hann bendir á alls kyns orð og orðasambönd sem í daglegu tali er tekið sem sjálfsögðum hlut en hljóma í raun algjörlega út úr kú. Þannig beinir hann eyrum áhorfenda að hinu augljósa og snýr hversdagsleikanum gjörsamlega á hvolf. Í meðhöndlun Ismo fá áhorfendur nýja og kómíska sýn á tungumálið og heiminn allan.
Sýningin fer fram í Tjarnarbíó þriðjudaginn 28. Ágúst kl. 20.
Ástralski uppistandarinn Jono Duffy mun hita áhorfendur upp áður en Ismo stígur á svið. Jono hefur vakið mikla athygli fyrir uppistand sitt á Íslandi á undanförum árum.
Ismo Leikola vann árið 2014 tiitlinn „Fyndnasta manneskja í heimi“ (e.The Funniest Person in the World) á Laugh Factory í Hollywood. Ári síðar flutti hann til Los Angeles og kemur þar reglulega fram. Words Apart í Tjarnarbíó er liður í Evrópuferðalagi Ismo.