Söngkonan Rachel Wish sendi síðastliðinn fimmtudag frá sér sitt fyrsta lag, CandyGlass og er lagið komið út á helstu tónlistarveitum heims; Spotify, Tidal, YouTube, Deezer, iTunes, Google Play, Shazam og fleiri.
Rachel Wish er hugarfóstur Rakelar Óskar Þorgeirsdóttur og Svans Herbertssonar, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Swan Swan H. Í tónlistarsköpun sinni blanda þau saman ljóðlist og flautuleik Rakelar og hljóðheimum sem Svanur töfrar fram með sínu sérstaka „bítí“ og Ableton Live.
„Alheimurinn sendi okkur Rachel Wish til þess að tendra neistann í okkar innsta kjarna með sínum trylltu rauðu lokkum, töfraflautum og rafrænni pönkljóðlist,“ segir Rakel Ósk.
Rakel Ósk og Svanur byrjuðu að skapa tónlist saman fyrr á þessu ári og upp úr þeim þreifingum spratt Rachel Wish fullsköpuð með slíkum krafti að sex laga EP-plata er væntanleg í vetur.
Flestir þekkja Rachel Wish sem módelið Rakel Ósk sem vakti töluverða athygli fyrir nokkrum misserum á Side9 pige síðunni í Ekstra Bladet í Danmörku.
„Það tók smá tíma fyrir Rakel að ná mainstream 80’s poppinu úr mér því ég hoppaði yfir í þetta verkefni beint eftir að hafa verið að klára U.F.O-plötuna,“ segir Svanur. „Rakel vildi fara með þetta í mjög hráa pönkaða synthwave-stefnu og var mjög ákveðin í því að það mætti alls ekki vera neitt „mainstream shit“ í gangi.
Dúóið stefnir á að gefa út tvo aðra „síngla“ á næstunni en byrjar ballið með CandyGlass.
Lagið verður frumflutt á Plug&Play kvöldi á Boston þann 6. september næstkomandi.
Hlaða má laginu frítt niður hér.
Lagið á Spotify.