Ljósmyndari DV rakst á fjölda þessara fígúra í miðbænum og má þar nefna tindáta, kúreka, ófreskjur, prinsessur, Pony-hesta, seiðskratta, vélmenni, geimverur, dverga og gríska hálfguðinn Herkúles úr samnefndri Disney-teiknimynd.
Uppsetning fígúranna er vafalaust ekki grín heldur háalvarlegur listgjörningur með boðskap en óvíst er hver stendur á bak við „sýninguna.“ Erlendis hefur verið í gangi verkefni síðan árið 2006 sem nefnist Little People og snýst það um að skilja eftir litlar fígúrur í almannarýminu. Listamaðurinn kallar sig Slinkachu og er 38 ára gamall Breti. Að sögn Slinkachu er tilgangurinn að gera íbúa stórborga meðvitaða um umhverfi sitt og sýna þann einmanaleika sem getur fylgt því að búa innan um milljónir manna. Ljóst er að Slinkachu sjálfur hefur ekki verið að verki í Reykjavík því hans verk eru umtalsvert þróaðri og meira lagt í þau en hjá íslensku eftirhermunni.